Fótbolti

Ari Freyr vill sjá Lars taka við lands­liðinu og stefnir sjálfur til Sví­þjóðar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ari Freyr Skúlason væri til í að sjá Lars taka við íslenska karlalandsliðinu.
Ari Freyr Skúlason væri til í að sjá Lars taka við íslenska karlalandsliðinu. Vísir/Vilhelm

Landsliðsmaðurinn Ari Freyr Skúlason segist vilja sjá Lars Lagerbäck sem næsta þjálfara íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu. Vinstri bakvörðurinn segist vera skoða sín mál og það komi til greina að spila í Svíþjóð á nýjan leik.

Hinn 33 ára gamli Ari Freyr hefur undanfarin fjögur ár leikið í Belgíu með Lokeren og Oostende. Eftir mikla veru á varamannabekk Oostende er Ari Freyr farinn að hugsa sér til hreyfings á nýju ári. Hann lék lengi vel í Svíþjóð og gæti hugsað sér að fara þangað á nýjan leik.

Ari Freyr ræddi við sænska blaðið Expressen nýverið þar sem hann fór yfir þetta sem og að hann vilji fá Lars Lagerbäck í hlutverk landsliðsþjálfara Íslands.

„Ég spilaði níutíu mínútur i síðasta leik en hef verið mikið á bekknum. Er orðinn 33 ára gamall og kannski er orðið tímabært að leita eitthvað annað, við sjáum hvað gerist á næsta ári,“ sagði Ari en samningur hans við Oostende rennur út sumarið 2021.

„Ég er opinn fyrir nær öllu og við fjölskyldan erum að skoða það að færa okkur aftur til Skandinavíu. Danmörk, Noregur eða Svíþjóð myndu öll henta vel, við sjáum svo bara hvernig það fer,“ bætti hann við.

Ari telur Erik Hamrén, fyrrum landsliðsþjálfara, hafa fengið óvæga gagnrýni.

„Erik er góður þjálfari og mjög vinalegur maður. Hann fékk of mikla gagnrýni sem var óverðskulduð. Áður en hann kom þá var lítið um meiðsli og allt gekk upp. Eftir að hann kom þá vorum við óheppnir með meiðsli leikmanna eins og Gylfa Þórs Sigurðssonar. Hamrén gat því ekki notað þá leikmenn sem hann vildi.“

„Ég væri til í að sjá Lars taka við íslenska landsliðinu á nýjan leik. Hann byrjaði þetta ævintýri sem hefur verið í gengi undanfarin ár. Það var klárlega hans vinna sem skilaði því. Hann er mjög rólegur að eðlisfari og með skýrar hugmyndir varðandi leikskipulag. Það er kannski ekki áferðafallegasti fótbolti í heimi en hann skilar úrslitum,“ sagði Ari Freyr að endingu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×