Fótbolti

Bodø/Glimt komið með 100 mörk | Mikil­vægur sigur Strøms­godset í fall­bar­áttunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Meistararnir eru komnir með 100 mörk á leiktíðinni. Í aðeins 29 leikjum.
Meistararnir eru komnir með 100 mörk á leiktíðinni. Í aðeins 29 leikjum. EFE/Fredrik Varfjell

Alls voru fjögur Íslendingalið í eldlínunni í norska boltanum í kvöld. Alfons Sampsted og félagar í Bodø/Glimt eru hvergi nærri hættir þó titillinn sé í höfn. Strømsgodset vann góðan sigur og Sandefjord gerði markalaust jafntefli.

Bodø/Glimt vann Haugesund 4-0 á útivelli, Strømsgodset vann Álasund 4-1 á útivelli og Sandefjord gerði markalaust jafntefli við Sarpsborg 08, einnig á útivelli.

Alfons Sampsted var á sínum stað í byrjunarliði Bodø/Glimt sem virðast hvergi nærri vera hættir þó titillinn sé löngu kominn í höfn. Liðið vann einkar öruggan sigur á Haugesund þökk sé tveimur mörkum í fyrri hálfleik og tveimur í þeim síðari.

Lokatölur 4-0 sem þýðir að Bodø/Glimt hefur nú skorað 100 mörk í aðeins 29 deildarleikjum. Alfons lék allan leikinn og nældi sér í gult spjald í síðari hálfleik.

Davíð Kristján Ólafsson var í byrjunarliði Álasund sem tapaði 4-1 á heimavelli gegn Strømsgodset. Báðir Íslendingarnir í liði gestanna hófu leik á bekknum en Valdimar Þór Ingimundarson kom inn vegna meiðsla strax á 33. mínútu.

Ari Leifsson kom inn á þegar þrettán mínútur lifðu leiks og hjálpaði Strømsgodset að sigla sigrinum heim.

Þá var Emil Pálsson með fyrirliðabandið hjá Sandefjord er liðið heimsótti Sarpsborg 08. Lauk leiknum með 0-0 jafntefli. Emil lék allan leikinn á miðri miðju gestanna en Viðar Ari Jónsson kom inn af bekknum í hálfleik.

Alfons og félagar meistarar og eftir sigur kvöldsins er forysta þeirra komin upp í 22 stig. Molde á þá tvo leiki til góða í öðru sæti deildarinnar. 

Sigur Strømsgodset var gríðarlega mikilvægur þar sem hann lyftir liðinu aðeins frá fallsætunum. Liðið er nú tveimur stigum frá umspilssæti um að halda tilverurétti sínum í deildinni og fjórum stigum frá fallsæti.

Álasund er fallið og Sandefjord er í 10. sæti af 16 liðum með 33 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×