Fótbolti

Guðni segir að Ís­land stefni á annað efstu sætanna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Guðni er sáttur með riðil Íslands.
Guðni er sáttur með riðil Íslands. vísir/vilhelm

Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir sambandið og íslenska landsliðið verða að stefna á annað efstu sætanna í undankeppni HM í knattspyrnu. Þetta kom fram í viðtali Guðna við íþróttavef mbl.is fyrr í kvöld.

Dregið var í riðla fyrir undankeppni HM í Katar sem fram fer undir lok árs 2022. Ísland leikur í J-riðli ásamt Þýskalandi, Rúmeníu, Norður-Makedóníu, Armeníu og Liechtenstein.

„Þetta er spennandi og nú er komið í ljós var við berum niður í þessu. Ég held að möguleikarnir séu alveg ágætir,“ sagði Guðni í viðtali við mbl.is.

„Þýskaland alltaf með firnasterkt lið. Við þekkjum Rúmeníu eftir umspilsleikinn á dögunum. Við höfum spilað áður við Norður-Makedóníu, Armeníu og Liechtenstein. Það má ekki vanmeta liðin úr neðri styrkleikaflokkum enda þurfa þau að hafa fyrir öllum stigum,“ bætti hann við.

Ísland spilar fyrstu þrjá leikina á útivelli

„Líklega hefst undankeppnin á þriggja leikja glugga í mars. Við byrjum á útivelli fyrstu þrjá leikina því við getum ekki spilað hér heima á þeim árstíma. Það er eitt af lykilatriðum í okkar málflutningi varðandi nýjan þjóðarleikvang. Það er mikilvægt atriði að fá heimaleiki þegar undankeppnir stórmóta hefjast enda gott að byrja vel í keppnunum,“ sagði Guðni að endingu við mbl.is.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×