Fótbolti

Forseti Barcelona: Leikmennirnir fá ekki laun í janúar

Anton Ingi Leifsson skrifar
Messi, Pjanic og De Jong fá ekki útborgun 1. janúar.
Messi, Pjanic og De Jong fá ekki útborgun 1. janúar. Pedro Salado/Quality Sport Images/Getty Images

Krísan í FC Barcelona heldur áfram og nú fá leikmennirnir ekki greidd laun í janúar.

FC Barcelona er í peningavandræðum og það sést ansi vel er litið er til viðtals við bráðabirgðaforseta félagsins, Carlos Tusquets.

Tusquets tók við stjórnartaumunum af Josep Maria Bartomeou í síðasta mánuði er sá síðarnefndi sagði upp störfum eftir mikið fjaðrafok að undanförnu.

Það byrjar ekki vel hjá bráðabirgðaforsetanum því hann sagði í samtali við útvarpsstöðina RAC1 að leikmennirnir munu ekki fá nein laun greidd í janúar vegna fjármálakrísunnar.

„Þetta er hörmuleg staða. Þetta er mikið áhyggjuefni en það er líka von,“ sagði Tusquets og hélt áfram.

„Leikmennirnir munu ekki fá laun í janúar. Laununum er frestað eins og maður sér oft gert með bónusa og önnur laun. Þau koma síðar, til að mynda ef liðið vinnur deildina,“ sagði Tusquets.

Skuldir Börsunga hafa hægt og rólega aukist síðustu ár en skuldirnar tvöfölduðust á milli júní 2019 og júní 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×