Innlent

Kaldasti tíminn í fyrra­málið: „Kæmi ekki á ó­vart að sjá mæla skríða undir 20 stigin“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það herðir á frosti um allt land og verður mjög kalt í fyrramálið.
Það herðir á frosti um allt land og verður mjög kalt í fyrramálið. Vísir/Vilhelm

Norðanáttin er farin að gefa eftir en þá nær kalda loftið yfir landinu að komast niður að yfirborðinu og verður kaldasti tíminn í fyrramálið að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

„Lægstu tölurnar verða líklega inn til landsins og þá einna helst á Norðurlandi og kæmi ekki á óvart að sjá mæla skríða undir 20 stigin.

Nær ströndinni ætti hitastigið að vera 3 til 7 stig og jafnvel gæti hitinn komist upp að frostmarki í Vestmannaeyjum. Til sunnudags dregur úr frosti um landið vestanvert en áfram verður kalt fyrir austan,“ segir í hugleiðingunum.

Líkur eru á þetta sé mesta kuldakast í sjö ár og eru Veitur til að mynda í viðbragðsstöðu þar sem búist er við að notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu slái öll met í kuldanum.

Er almenningur hvattur til að fara sparlega með heita vatnið og huga vel að því hvernig kyndingin er, til dæmis með því að hafa glugga lokaða, ofna rétt stillta og hafa útidyr ekki opnar of lengi.

Veðurhorfur á landinu:

Norðan 13-23 m/s, hvassast A-til, en hvassara í vindstrengjum sunnan Vatnajökuls. Snjókoma, él eða skafrenningur NA- og A-lands, en annars úrkomulaust að kalla. Dregur úr vindi og léttir til, fyrst V-til og kólnar í veðri.

Norðlæg átt, víða 5-13 m/s í kvöld og stöku él fyrir austan, en bjartviðri í öðrum landshlutum. Frost 2 til 14 stig, mildast við SA-ströndina, en kaldast inn til landsins fyrir norðan.

Breytileg átt 3-8 og léttskýjað á morgun, en líkur á éljum við SV-ströndina seinnipartinn. Frost 10 til 20 stig, en mildara við S- og SV-ströndina.

Á laugardag:

Hæg suðlæg eða breytileg átt og víða bjartviðri, en dálítil él við SV-ströndina. Frost 4 til 18 stig, minnst syðst.

Á sunnudag:

Austlæg eða breytileg átt, 3-10 m/s og dálítil él við S- og V-ströndina, en annars bjartviðri. Dregur heldur úr frosti.

Á mánudag og þriðjudag:

Áfram hægar austlægar áttir með éljum á víð og dreif, einkum þó um landið vestanvert. Frost 0 til 6 stig, en sums staðar frostlaust við SV-ströndina.

Á miðvikudag:

Vaxandi austanátt með slyddu eða snjókomu syðst á landinu og hlýnandi veðri. Líklega rigning S- og V-til undir kvöld.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×