Innlent

Heitara vatn í pípunum og fólk gæti því varúðar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Besta nýtingin á auknum varma í pípunum næst þegar ofnar eru heitir að ofan og kaldir að neðanverðu.
Besta nýtingin á auknum varma í pípunum næst þegar ofnar eru heitir að ofan og kaldir að neðanverðu. Vísir/getty

Notkun á heitu vatni á höfuðborgarsvæðinu eykst nú stöðugt með kólnandi veðri. Búist er við að álagsmet verði slegið á laugardag. Brugðist hefur verið við auknu álagi með því að hækka hitastig á vatninu og er fólk því hvatt til að gæta varúðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum.

Klukkan 17:00 í dag var rennslið á heitu vatni komið í 14.900 rúmmetra á klukkustund (m3/klst) á höfuðborgarsvæðinu og búist er við að það verði um 15.500 m3/klst á miðnætti. Á morgun er búist við hægri stigvaxandi aukningu en mesta álagið á hitaveituna verður í hádeginu á laugardag.

„Gangi veðurspá eftir stefnir í að notkunin verði þá komin upp undir 18.000 m3/klst sem slær út fyrra met sem er 17.000 m3/klst. Til að setja þá tölu í samhengi þá hefði rennslið dugað til að fylla djúpu útilaugina í Laugardalslaug á rúmum fimm mínútum,“ segir í tilkynningu frá Veitum.

Ein af þeim aðgerðum sem Veitur hafa ráðist í til að bregðast við þessari miklu notkun er að hækka hitastig vatnsins í hitaveitunni. Sú hækkun er nú að skila sér til notenda og gerir þeim kleift að lækka í ofnum án þess að hitinn minnki. Besta nýtingin á varmanum næst þegar ofnar eru heitir að ofan og kaldir að neðanverðu og mælt er með að þeir séu stilltir þannig.

„Víða er sama vatn nýtt til húshitunar og í þvotta og böð og því er rétt að ítreka að nú sem endranær þarf að gæta ítrustu varúðar þegar heitt vatn er notað, ekki síst þegar fólk með skert snertiskyn eða óvitar eru á heimilinu,“ segir í tilkynningu Veitna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×