Innlent

Þing­hald verður opið í Bræðra­borgar­stígs­málinu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ákærði leiddur fyrir dómara þegar krafist var gæsluvarðhalds yfir honum.
Ákærði leiddur fyrir dómara þegar krafist var gæsluvarðhalds yfir honum. Vísir/Vilhelm

Þinghald verður opið í máli Marek Moszczynski, karlmanns á sjötugsaldri sem ákærður er fyrir manndráp og íkveikju á Bræðraborgarstíg í sumar. Svo segir í úrskurði Landsréttar sem staðfesti niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur þess efnis. Verjandi Mareks hafði farið fram á að þinghaldi yrði lokað þegar hann og geðlæknar gæfu skýrslu.

Þrír létust í brunanum á Bræðraborgarstíg í sumar og fleiri slösuðust. Þrettán manns voru inni í húsinu þegar Marek er talinn hafa valdið eldsvoðanum.

Marek neitaði sök við þingfestingu málsins á dögunum. Þá fór Stefán Karl Kristjánsson, verjandi Mareks, fram á að þinghaldi í málinu yrði lokað.

Reikna mætti með mikilli þolraun í dómsal sem ætti ekki erindi við almenning. Því mótmælti Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari og sagðist ekki sjá ástæðu til að loka þinghaldi. Barbara Björnsdóttir dómari sagðist myndu taka kröfuna til skoðunar.

Meira þurfi að koma til

Landsréttur og héraðsdómur vísuðu báðir til þeirrar greinar stjórnarskrárinnar að dómþing skuli háð í heyranda hljóði. Frá því mætti víkja meðal annars til að gæta hagsmuna málsaðila. Um sé að ræða undantekningu frá meginreglu sem beri að skýra þröngt.

Í úrskurði héraðsdóms segir að ríkar ástæður þurfi að vera til að víkja frá meginreglunni.

„Þótt það sé yfirleitt þungbært fyrir ákærða og aðra þá sem mál varðar að þinghöld í sakamálum séu háð fyrir opnum tjöldum nægir það eitt og sér ekki til þess að þeim verði lokað, heldur verður eitthvað meira til að koma svo að það verði gert,“ segir í úrskurði Símonar Sigvaldasonar, dómstjóra við Héraðsdóm Reykjavíkur.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×