Innlent

Segir oddvita Sjálfstæðisflokks eiga líta sér nær með gagnrýni um skuldasöfnun

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, fylgist með kynningu á fjárhagsáætlun borgarinnar.
Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, fylgist með kynningu á fjárhagsáætlun borgarinnar. vísir/Sigurjón

Reykjavíkurborg ætlar að mæta kórónuveirukreppunni með hátt í tvö hundruð milljarða króna fjárfestingarátaki og fjármagna það framan af með lántöku. Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir borgina taka bæði á góðæri og kreppu með skuldsetningu.

Tekjur borginnar hafa dregist saman og kostnaður vegna ýmissar þjónustu aukist vegna áhrifa kórónuveirunnar og Reykjavíkurborg horfir nú fram á ríflega 11 milljarða króna halla á næsta ári. Hann á að fjármagna með lántöku til að ekki þurfi að draga úr þjónustu.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borginni og formaður borgarráðs, segir aukið álag á innviðum borgarinnar vegna atvinnuleysis og félagslegra erfiðleika.

„Við kunnum það frá síðasta hruni að ef við gefum afslátt af þessu þá kemur það í bakið á okkur og er svolítið eins og að pissa í skóinn sinn,“ segir hún.

Til að komast út úr ástandinu verður ráðist í fjárfestingar fyrir 28 milljarða króna á næsta ári, sem einnig verður fjármagnaðar með lántöku.

„Við teljum einfaldlega þetta réttu viðbrögðin við efnahagssamdrætti, atvinnuleysi og viljum fjárfesta í því sem tryggir okkur græna framtíð hraðar,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. 

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar var kynnt í dag. Gert er ráð fyrir 11,3 milljarða króna halla á næsta ári.vísir/Sigurjón

Hann segir lántökuna mikla á næsta ári. 

„Þá erum við bæði að taka lán fyrir neikvæðri niðurstöðu hjá borgarsjóði og síðan erum við að ráðast í 28 milljarða lántöku en það minnkar um leið og tekjurnar aukast og veltufé frá rekstri eykst. Þannig að aðferðin sem við beitum er að vaxa út úr vandanum.“

Á næstu þremur árum ætla borgin og fyrirtæki á hennar vegum að fjárfesta í heild fyrir 175 milljarða. Áætlunin nefnist græna planið og á dagskrá eru skólar, sundlaugar, íbúðauppbygging, vetrargarður í Breiðholti og götur eiga að fá grænna yfirbragð með gróðri. 

Þá stendur til að lækka álögur á íbúa og fyrirtæki. Lækka á fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði úr 1,65% í 1,6% og þriðja barn fjölskyldna á að fá fríar skólamáltíðir.

Eyþór Arnalds Laxdal, oddviti Sjálfstæðisflokksins, lýsir áætlun borgarinnar sem „græna skuldaplaninu.“

„Það sem vantar er að taka á undirliggjandi rekstri. Borgin fór í gegnum góðærið með því að taka lán og skuldsetja sig og hún þarf að geta komist út úr kreppunni þannig að hún haldi ekki áfram að taka lán.“

Þórdís Lóa segir nálgunina skynsamlega. 

„Við trúum því að við séum ekki að ganga frá Reykjavík með skuldsetningu. Eftir þessa skuldsetningu, bara árið 2021, erum við enn með lægsta skuldahlutfall á höfuðborgarsvæðinu. Við erum lægri en Kópavogur, Hafnarfjörður, Mosfellsbær og Seltjarnarnes. Þannig það er ekki verri staða en það. Og af því það er nú oddviti Sjálfstæðisflokksins sem segir þetta bendi ég á að það eru oddvitar Sjálfstæðisflokksins sem stýra öllum þessum sveitarfélögum. Þannig að ég held að menn ættu nú aðeins að líta sér nær áður en þeir fara að kýta í borgina fyrir þetta.“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík og formaður borgarráðs.vísir/Sigurjón

Þórdís Lóa sagði á kynningarfundi um aðgerðirnar í dag að ríkið gæfi sveitarfélögum ekki annarra kosta völ en að bregaðst við ástandinu með lántökum. Kallað hefur verið eftir frekari stuðning úr ríkissjóði.

„Við segjum það bara upphátt. Við viljum fara í fjárfestingu. Við viljum veita góða þjónustu. Og við ætlum að gera það. En við viljum líka fá skýr skilaboð frá ríkinu um hvernig ríkið ætlar að stuðja við sveitarfélög.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×