Fótbolti

Knattspyrnukona fékk morðhótanir eftir að hún neitaði að heiðra Maradona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paula Dapena situr í grasinu á meðan leikmenn áttu að heiðra minningu Diego Maradona.
Paula Dapena situr í grasinu á meðan leikmenn áttu að heiðra minningu Diego Maradona. EPA-EFE/Amador Lorenzo

Knattspyrnukonan Paula Dapena var ekki tilbúin að heiðra minningu knatttspyrnugoðsagnarinnar Diego Maradona og það hefur vakið mjög sterk viðbrögð.

Paula Dapena spilar með Viajes InterRias FF í spænsku C-deildinni og fyrir æfingaleik á móti Deportivo La Coruna um helgina þá minntust leikmenn Maradona sem féll frá í síðustu viku.

Það er það áttu allir leikmenn að minnast Maradona en Paula Dapena var ekki tilbúin í það. Hún settist niður í grasið og snéri sér í öfuga átt þegar liðin stilltu sér upp við miðjuhringinn.

Dapena var ekki tilbúinn að líta framhjá því að Diego Maradona hafi verið sakaður um heimilisofbeldi árið 2014 þegar hann virtist slá til eiginkonu sinnar í myndbandi. Maradona neitaði þessum ásökunum, sagðist aðeins hafa hent símanum sínum og að hann myndi aldrei slá konu.

„Það er ekki aðeins ég sem hef orðið fyrir áreiti heldur einnig liðsfélagar mínir,“ sagði Paula Dapena við ESPN.

„Við höfum fengið morðhótanir og skilaboð eins og: Ég ætla að leita uppi heimilisfangið þitt, koma þangað og fótbrjóta þig á báðum,“ sagði Dapena.

Dapena er áhugakona í knattspyrnu og starfar sem kennari. Hún sagði það hefði verið „hræsnisfullt“ af sér að gleyma fortíð Maradona.

„Það er hræsnisfullt að vera með mínútu þögn fyrir Maradona sem var þekktur fyrir að vera misþyrma konum en ekki minnast fórnarlamba ofbeldis gegn konum,“ sagði Dapena en Maradona dó á Alþjóðlegum baráttudegi gegn ofbeldi gagnvart konum,“ sagði Dapena.

„Fráfall Maradona skyggði algjörlega á þann dag. Við fórum frá því að hafa sviðsljósið á dauða allra þessara kvenna í það að hafa það á Maradona og hversu mikil fyrirmynd hann var fyrir alla,“ sagði Dapena.

Hún sagði vera mjög hissa á því að hún hafi verið eina konan sem neitaði að heiðra minningu Maradona.

„Maradona var frábær fótboltamaður með ótrúlega hæfileika. Fyrir utan það var hann allt annað en góð fyrirmynd,“ sagði Paula Dapena




Fleiri fréttir

Sjá meira


×