Jóhann Berg kom ekki við sögu er Mahrez og City léku sér að Burnl­ey

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
City átti einn af sínum betri leikjum á tímabilinu í dag.
City átti einn af sínum betri leikjum á tímabilinu í dag. EPA-EFE/Michael Regan

Manchester City valtaði yfir Burnley í öðrum leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Alsíringurinn Riyad Mahrez gerði þrjú er City vann þægilegan 5-0 sigur.

Lærisveinar Sean Dyche hafa ekki riðið feitum hesti í viðureignum sínum gegn Manchester City undanfarin misseri. Leikur dagsins var meira af því sama en Mahrez kom heimamönnum yfir strax á 6. mínútu eftir snyrtilega sendingu Kevin De Bruyne.

Mahrez tvöfaldaði forystu City um miðbik fyrri hálfleiks með frábæru marki eftir að Kyle Walker var fljótur að taka innkast. Mahrez fékk boltann inn á teig, sveif fram hjá varnarmönnum Burnley og átti skot sem Bailey Peacock-Farrell réð engan veginn við í marki Burnley.

Nick Pope var fjarri góðu gamni í dag og Peacock-Farrell fékk vægast sagt erfiðan fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni.

Vinstri bakvörðurinn Benjamin Mendy bætti svo við þriðja marki City undir lok fyrri hálfleiks eftir frábæra sendingu De Bruyne. Staðan 3-0 í hálfleik en City voru hvergi nærri hættir.

Ferran Torres bætti fjórða markinu við á 66. mínútu og Mahrez fullkomnaði þrennu sína þremur mínútum síðar. Staðan orðin 5-0 og reyndust það lokatölur leiksins. Peacock-Farrell skoraði reyndar sjálfsmark þegar 15 mínútur voru til leiksloka en Gabriel Jesus var dæmdur rangstæður svo markvörðurinn slapp með skrekkinn. 

De Bruyne var svo hársbreidd frá því að skora sjötta mark City undir lok leiks en skot hans hafnaði í innanverðri stönginni. Þægilegur 5-0 sigur City hins vegar staðreynd og liðið nú komið upp í 8. sæti með 15 stig, sex stigum á eftir toppliði Liverpool. Burnley er að sama skapi í 17. sæti með fimm stig, einu stigi fyrir ofan fallsæti.

Jóhann Berg Guðmundsson sat allan tímann á varamannabekk Burnley.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.