Fótbolti

Tóku myndir af sér brosandi við lík Maradonas

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kista Diegos Maradona var til sýnis í forsetahöllinni í Búenos Aíres.
Kista Diegos Maradona var til sýnis í forsetahöllinni í Búenos Aíres. EPA-EFE/PRESIDENCY OF ARGENTINA

Argentínumenn eru æfir vegna afar ósmekklegra mynda sem voru teknar við lík Diegos Maradona.

Þrír starfsmenn sem voru ráðnir til að hjálpa við útför Diegos Maradona hafa verið fordæmdir fyrir að taka myndir af sér með líki argentínska snillingsins.

Á tveimur myndum sjást mennirnir brosandi og með þumal á lofti við hlið kistu Maradonas þegar hún stóð opin í forsetahöllinni í Búenos Aíres.

Matías Picón, forstjóri útfararstofunnar sem sá um útför Maradonas, sagðist vera miður sín vegna myndanna sem mennirnir tóku. Þeir voru ekki starfsmenn útfararstofunnar en voru ráðnir inn tímabundið til að hjálpa til við útförina.

Picón sagði að fyrrverandi eiginkona Maradonas, Claudia Villafane, hafi verið bálreið þegar hann greindi henni frá myndunum. Ekki er vitað hvort fjölskylda Maradonas ætlar í mál vegna myndanna.

Kista Maradonas var til sýnis í forsetahöllinni í Búenos Aíres í hálfan sólarhring en þúsundir manna gerðu sér ferð þangað til að votta honum virðingu sína. Ekki komust allir að og það sló í brýnu milli aðdáenda Maradonas og lögreglunnar sem beitti m.a. táragasi og plastkúlum.

Maradona var svo jarðaður við hlið foreldra sinna í Jardin Bella Vista kirkjugarðinum í Búenos Aíres í gær. Aðeins fjölskylda og nánustu vinir voru viðstödd útförina.

Maradona lést af völdum hjartaáfalls á miðvikudaginn, sextugur að aldri. Í kjölfarið var þriggja daga þjóðarsorg var lýst yfir í Argentínu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×