Fótbolti

Aðeins fjölskylda og nánustu vinir viðstaddir þegar Maradona var jarðaður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Fjöldi fólks reyndi að snerta líkbilinn þegar farið var með kistu Diegos Maradona í Jardin Bella Vista kirkjugarðinn þar sem hann var lagður til hinstu hvílu.
Fjöldi fólks reyndi að snerta líkbilinn þegar farið var með kistu Diegos Maradona í Jardin Bella Vista kirkjugarðinn þar sem hann var lagður til hinstu hvílu. getty/Mariano Gabriel Sanchez

Diego Maradona var lagður til hinstu hvílu í gær. Til átaka kom milli aðdáenda hans og lögreglunnar í Búenos Aíres.

Diego Maradona var jarðaður í gær. Hann lést í fyrradag, sextugur að aldri, af völdum hjartaáfalls.

Aðeins fjölskylda og nánustu vinir voru viðstaddir athöfnina í Jardin Bella Vista kirkjugarðinum í Búenos Aíres. Maradona var jarðaður við hlið foreldra sinna, Dölmu og Diego.

Fjölmenni safnaðist saman þegar ekið var með kistu Maradonas í kirkjugarðinn. Margir reyndu að snerta líkbílinn í hvert einasta skipti sem umferð stöðvaðist.

Kista Maradonas var til sýnis í forsetahöllinni í tólf klukkutíma. Hún var sveipuð argentínska fánanum og treyjum sem hann spilaði í með númerinu 10 á bakinu.

Aðdáendur Maradona mynduðu rúmlega kílómetra langa röð við forsetahöllina þar sem þeir biðu eftir því að votta honum virðingu sína. Átök brutust síðan út milli þeirra og lögreglunnar. Steinum og öðru lauslegu var kastað í lögregluna sem svaraði með því að nota táragas og plastkúlur. Nokkrir meiddust í átökunum og nokkrir voru handteknir.

Á endanum þurfti að stöðva athöfnina og farið var með kistu Maradonas í kirkjugarðinn síðdegis.

Maradona er í guðatölu í Argentínu og þriggja daga þjóðarsorg var lýst yfir í landinu eftir andlát hans.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.