Erlent

Fer úr Hvíta húsinu ef kjörmennirnir kjósa Biden

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sagt að hann muni fara úr Hvíta húsinu fari það svo að kjörmennirnir kjósi Joe Biden.
Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur sagt að hann muni fara úr Hvíta húsinu fari það svo að kjörmennirnir kjósi Joe Biden. Getty/Erin Schaff - Pool

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að hann muni fara úr Hvíta húsinu ef kjörmennirnir kjósa Joe Biden, verðandi forseta, í kosningu sem fram fer þann 14. desember. Biden á að taka við embættinu 20. janúar.

Trump hefur neitað að viðurkenna ósigur í kosningunum sem fram fóru þann 3. nóvember og sagði við fréttamenn í gærkvöldi að það yrði erfitt að játa sig sigraðan.

Bandaríska kosningakerfið er þannig að í raun kjósa landsmenn sér kjörmenn í hverju ríki og það eru þeir sem á endanum velja forsetann.

Til að ná kjöri þarf forseti að tryggja sér 270 kjörmenn en þeir eru alls 538. Biden hefur tryggt sér 306 kjörmenn og Trump 232.

Trump ræddi við fréttamenn úr Hvíta húsinu í gær. Hann var spurður að því hvort hann myndi fara úr Hvíta húsinu ef hann tapaði í kosningunni hjá kjörmönnunum.

„Auðvitað mun ég gera það, auðvitað mun ég gera það og þú veist það,“ svaraði Trump. Hann bætti síðar við að ef kjörmennirnir myndu kjósa Biden þá væru það mistök af þeirra hálfu. Þá gaf hann til kynna að hann myndi aldrei formlega viðurkenna ósigur.

„Það verður mjög erfitt að viðurkenna ósigur því við vitum að það var víðtækt kosningasvindl,“ sagði Trump.

Líkt og undanfarnar vikur var ásökunin um kosningasvindl sett fram án nokkurra sannana og hefur enginn rökstuddur grunaður vaknað um slíkt svindl í neinu ríki Bandaríkjanna í kjölfar kosninganna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.