Wood tryggði Burnl­ey fyrsta sigurinn á leik­tíðinni

Wood fagnar marki sínu í kvöld.
Wood fagnar marki sínu í kvöld. Jan Kruger/Getty Images

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley unnu loksins leik í ensku úrvalsdeildinni á leiktíðinni er Crystal Palace heimsótti Turf Moor í kvöld. Aðeins eitt mark var skorað í kvöld og það gerði Chris Wood á 8. mínútu leiksins.

Leikurinn var nokkuð jafn frá upphafi til enda og lítið um opin marktækifæri enda bæði lið þekkt fyrir þéttan varnarleik frekar en blússandi sóknarleik. Eina markið kom eins og áður sagði á 8. mínútu og þar við sat. 

Cheikhou Kouyate mistókst að eiga við háan bolta frá Ben Mee, boltinn féll fyrir fætur Jay Rodriguez sem flikkaði honum með hælnum inn fyrir vörn Palace á Wood sem kláraði færið með stakri prýði.

Gestirnir voru án Wilf Zaha sem greindist með kórónuveiruna en hann er potturinn og pannan í sóknarleik Palace. 

Burnley vann þar með sinn fyrsta sigur á leiktíðinni og komst upp úr fallsæti. Liðið er nú með fimm stig að loknum níu umferðum.

Jóhann Berg Guðmundsson var í byrjunarliði Burnley, var hann tekinn af velli á 67. mínútu leiksins.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.