Innlent

Með réttar­stöðu sak­bornings eftir veltuna í Öxna­dal

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Bíllinn alelda á slysstað í Öxnadal 6. nóvember.
Bíllinn alelda á slysstað í Öxnadal 6. nóvember.

Ökumaður bíls sem valt út af þjóðveginum í Öxnadal í Hörgársveit fyrr í mánuðinum hefur réttarstöðu sakbornings. Málið er rannsakað sem líkamsmeiðing af gáleysi en ýmislegt er talið benda til þess að ökumaðurinn hafi ekið of hratt þegar bíllinn valt.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá en Bergur Jónsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra staðfestir þetta í samtali við Vísi. 

Bergur segir að ummerki á vettvangi og framburður vitna bendi til þess að ekið hafi verið yfir lögreglum hámarkshraða. Ætlaður hraði bílsins verði reiknaður út með aðstoð sérfræðings en niðurstaða frá honum liggi ekki fyrir. Á meðan sú rannsókn standi yfir hafi ökumaðurinn, karlmaður á þrítugsaldri, réttarstöðu sakbornings. 

Rætt við farþega, ökumann og vegfarendur

Tvö voru í bílnum, karl og kona. Þegar Vísir náði síðast tali af Bergi hafði lögregla ekki náð að ræða við fólkið sem flutt var talsvert slasað á sjúkrahús af slysstað. Bergur segir að nú hafi verið tekin af því skýrsla, sem og vegfarendum sem komu að slysinu og fólki sem varð bílsins vart.

Konan hlaut fjöláverka við veltuna og slasaðist töluvert. Karlinn slasaðist líka en hefur verið útskrifaður af sjúkrahúsi, að því er Bergur best veit. 

Slysið varð á þjóðvegi 1 til móts við bæinn Syðri-Bægisá í Öxnadal í Hörgársveit rétt fyrir klukkan hálf þrjú föstudaginn 6. nóvember. Samkvæmt ummerkjum á vettvangi var bifreiðinni ekið til norðurs en hafnaði síðan út af veginum og valt nokkrar veltur. Við það kom eldur upp í henni og varð hún fljótt alelda.

Manninum tókst að komast út úr bílnum af sjálfsdáðum en konan vankaðist við veltina og þurfti að hjálpa henni út.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×