Innlent

Þurfa að koma heim ekki seinna en 18. desember til að vera ekki í sótt­kví um jólin

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þessi mynd er tekin í Smáralind í jólaösinni í fyrra. Enginn er með grímu og engar biðraðir fyrir utan verslanir sem er eitthvað sem mun vafalítið einkenna jólaverslunina í ár.
Þessi mynd er tekin í Smáralind í jólaösinni í fyrra. Enginn er með grímu og engar biðraðir fyrir utan verslanir sem er eitthvað sem mun vafalítið einkenna jólaverslunina í ár. Vísir/Vilhelm

Þeir Íslendingar sem búsettir eru erlendis og ætla að koma heim yfir jólin þurfa að koma heim eigi síðar en 18. desember til þess að vera ekki í sóttkví um jólin.

Þetta sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, á upplýsingafundi í dag. Dagsetning sem hann nefndi er í samræmi við þær reglur sem áfram munu gilda á landamærunum eftir að núverandi fyrirkomulag rennur út þann 1. desember.

Fólk sem hingað kemur til lands mun áfram þurfa að velja á milli þess að fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli eða fjórtán daga sóttkví.

Sú breyting verður á 1. desember að skimunin er gerð gjaldfrjáls og frá 10. desember verða vottorð um að fólk hafi fengið COVID-19 og að sýking sé afstaðin tekin gild. Slík vottorð veita undanþágu frá þeim kröfum sem annars eru gerðar.

Víðir sagði á fundinum í dag að mjög mikilvægt væri að þeir sem ætli sér að koma hingað yfir jólin átti sig á fyrrnefndum tímaramma til að vera ekki í sóttkví um jól.

Aðspurður hvaða ráðstafanir gripið hefði verið til í ljósi þess að fleiri munu komu til landsins í aðdraganda jóla en hafa komið undanfarnar vikur sagði Víðir yfirvöld ágætlega undirbúin og tilbúin að taka á móti fjölda fólks.

Það væri til dæmis búið að skoða spár um fjölda farþegar í desember og þær sýndu að farþegafjöldinn myndi aukast þegar nær dregur jólum. Þá væru enn til staðar þrjú tilbúin sóttvarnahús í Reykjavík líkt og verið hefur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×