Erlent

Á að lappa upp á bandalög Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Antony Blinken var aðstoðarutanríkisráðherra í forsetatíð Barack Obama.
Antony Blinken var aðstoðarutanríkisráðherra í forsetatíð Barack Obama. AP/Luis Magana

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, er sagður ætla að skipa Antony Blinken sem utanríkisráðherra. Blinken var aðstoðarutanríkisráðherra í forsetatíð Barack Obama og verður verkefni hans að stappa stálinu í hefðbundna bandamenn Bandaríkjanna og lappa upp á bandalög. Hann er þar að auki vinur Bidens til margra ára og hans helsti ráðgjafi varðandi erlend málefni.

Samkvæmt frétt New York Times er einnig búist við því að Biden muni tilnefna Jake Sullivan sem þjóðaröryggisráðgjafa. Sá er einnig náinn ráðgjafi Bidens var áður í þjóðaröryggisráði hans þegar hann var varaforseti.

Bæði Blinken og Sullivan voru harðir gagnrýnendur „Bandaríkin fyrst“ stefnu Donald Trumps, fráfarandi forseta, og sögðu hana skapa tækifæri og tómarúm á alþjóðasviðinu sem andstæðingar Bandaríkjanna hafi nýtt sér.

Þá er Biden sagður ætla að skipa Lindu Thomas-Greenfield í embætti sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum. Hún vann einnig áður hjá Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna.

Biden hefur þar að auki valið Ron Klain til að sinna gegna embætti starfsmannastjóra Hvíta hússins, þegar hann tekur við embætti þann 20. janúar.

Sjá einnig: Biden til­kynnir ráð­herra­efni á þriðju­dag

Í grein Washington Post segir að þessar fregnir séu til marks um að Biden ætli að reiða sig á fólk sem starfaði innan ríkisstjórnar Obama.

Biden ætlar sér að gera Bandaríkin aftur aðila að Parísarsáttmálanum, stöðva úrgöngu Bandaríkjanna úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og endurbyggja kjarnorkusamkomulagið við Íran.


Tengdar fréttir

Telja eftir­lits­menn Trump hindra endur­talningu í Wisconsin

Yfirmenn kjörstjórnar í Wisconsin sökuðu eftirlitsmenn á vegum framboðs Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, um að reyna að hindra endurtalningu atkvæða úr forsetakosningunum þar í gær. Framboðið fór sjálft fram á endurtalninguna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×