Lífið

Ein stærsta fjöldagröf Íslands er á Útskálum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hörður Gíslason sýnir fjöldagröfina, sem er við bakhlið Útskálakirkju í Garði. Hér hvíla 89 menn.
Hörður Gíslason sýnir fjöldagröfina, sem er við bakhlið Útskálakirkju í Garði. Hér hvíla 89 menn. Arnar Halldórsson

Ein stærsta fjöldagröf á Íslandi er í kirkjugarðinum á Útskálum á Suðurnesjum. Gröfin er um leið minnisvarði um einhvern mesta mannskaða í sögu Íslandsbyggðar.

„Hér hvíla 89 menn,“ segir Hörður Gíslason frá Sólbakka í Garði, áhugamaður um sögu Suðurnesja, um leið og hann sýnir okkur gröfina við austurvegg Útskálakirkju. Hann er meðal viðmælenda í þættinum Um land allt á Stöð 2 á mánudagskvöld, sem fjallar um Garðinn.

Séð yfir Útskála. Gamla prestssetrið sést vinstra megin við kirkjuna. Fjær til hægri sér í Garðskagavita.Arnar Halldórsson

„Fyrir utan þar sem Sturlungar börðust í Skagafirði, þá er hér mesta fjöldagröf á Íslandi - fyrir utan Örlygsstaði og Hauganes,“ segir Hörður.

Gröfin vitnar um grimm örlög sem oft fylgdu sjósókn. Þarna hvíla sjómenn sem fórust á tugum Suðurnesjabáta í illviðri þann 8. mars árið 1685, fyrir 335 árum.

„Þá gerir svona vont veður. Þá hvellrauk, sögðu menn – kom að óvörum. Það er talað um að það hafi farist yfir 150 manns hér á skaganum í þessu áhlaupi.“

Hörður Gíslason er frá Sólbakka í Garði. Fjöldagröfin er fyrir aftan.Arnar Halldórsson

Meirihluta líkanna rak á land og voru þau flest sett í sameiginlega gröf á Útskálum, en staðurinn var á þeim tíma eitt helsta höfuðból Suðurnesja.

„Þetta er stór hluti af íbúafjöldanum. Þetta eru heimamenn og aðkomumenn. Þetta eru náttúrlega bara hamfarir. Það er ekki hægt að lýsa þessu öðruvísi.

Og menn geta ímyndað sér sárin og tímabilið á eftir þegar þetta gerist. Það fer atvinnulífið – fyrirvinnurnar hverfa,“ segir Hörður.

Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins um Garðinn:
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.