Innlent

Yfirlögregluþjónar stefna vegna umdeildra kjarabóta

Kjartan Kjartansson skrifar
Haraldur Johannessen mætir á fund Áslaugar Örnu dómsmálaráðherra.
Haraldur Johannessen mætir á fund Áslaugar Örnu dómsmálaráðherra. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Hópur yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna hefur stefnt ríkislögreglustjóra og ríkinu vegna ákvörðunar um að afturkalla samninga sem Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri, gerði við þá og bætti launakjör þeirra og lífeyrirsgreiðslur.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi ríkislögreglustjóri, fékk lögfræðiálit í sumar um að forveri hennar í embætti hafi ekki haft heimild til að semja við yfirlögregluþjónana og aðstoðaryfirlögregluþjónana um kjarabætur. Föst mánaðarlaun þeirra hækkuðu um 48% að meðaltali með samningnum. Ákvað Sigríður Björk í kjölfarið að vinda ofan af samningunum.

Morgunblaðið sagði frá því í morgun að yfirlögregluþjónarnir og aðstoðaryfirlögregluþjónarnir hefðu stefnt ríkinu vegna þess. Þeir telji engar forsendur fyrir því að afturkalla samningana og vilja að embætti ríkislögreglustjóra standi við þá. Málið var þingfest á miðvikudag.

Kjarabæturnar voru afar umdeildar og á þeim tíma sem samningurinn var gerður stóð Haraldur þegar í miklu stappi við lögreglumenn. Lögreglustjórar vöktu jafnan athygli á því að með samkomulaginu væru laun umræddra lögregluþjóna orðin hærri en laun flestra lögreglustjóra í landinu. Dómsmálaráðherra krafðist skýringa á ákvörðun Haraldar og fól Sigríði Björk, sem þá var tekin við embættinu, að taka samningana til skoðunar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×