Innlent

Haraldur hafði ekki heimild til að semja um kjarabætur nokkurra lögregluþjóna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi ríkislögreglustjóri, hyggst vinda ofan af samningunum sem Haraldur gerði við umrædda lögregluþjóna.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi ríkislögreglustjóri, hyggst vinda ofan af samningunum sem Haraldur gerði við umrædda lögregluþjóna. Vísir/Vilhelm

Haraldur Johannessen, fyrrverandi ríkislögreglustjóri hafði ekki heimild til að semja við yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna um kjarabætur. Þetta er niðurstaða lögfræðiálits sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir, núverandi ríkislögreglustjóri, aflaði. Fram kom í kvöldfréttum RÚV að Sigríður hafi tilkynnt yfirmönnum hjá embættinu að hún hyggist vinda ofan af samningunum.

Haraldur bauð yfirlögregluþjónum og aðstoðaryfirlögregluþjónum hjá embætti ríkislögreglustjóra sem greiða í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, í ágúst í fyrra að færa fastar yfirvinnustundir inn í grunnlaun. Samkomulagið leiddi til þess að föst mánaðarlaun tveggja yfirlögregluþjóna og sjö aðstoðaryfirlögregluþjóna hækkuðu um 48% að meðaltali og þeir fengu aukin lífeyrisréttindi.

Skuldbindingar LSR jukust um 309 milljónir króna vegna samkomulagsins sem er um 55% hlutfallsleg hækkun. Málið var afar umdeilt og á þeim tíma sem samningurinn var gerður var Haraldur þegar í miklu stappi við lögreglumenn. Lögreglustjórar vöktu jafnan athygli á því að með samkomulaginu væru laun umræddra lögregluþjóna orðin hærri en laun flestra lögreglustjóra í landinu.

Dómsmálaráðherra fól Sigríði Björk, nýjum ríkislögreglustjóra, að taka samningana til skoðunar og sendi hún lögreglustjórum bréf þess efnis. Sigríði var meðal annars falið að skoða hvort breytingarnar hafi verið í samræmi við yfirlýstan stofnanasamning.

Embætti ríkislögreglustjóra leitaði til Forum lögmanna til að gera álitsgerð um réttarstöðu embættisins vegna samninganna að sögn RÚV. Í álitsgerðinni var skýrt tekið fram að Haraldur hafði enga heimild til að gera samningana, engin málefnaleg rök voru fyrir þeim og að eina markmiðið hafi verið að auka lífeyrisréttindi lögregluþjónanna sem skrifuðu undir samninginn.

Þá hafi ríkislögreglustjóri ekki haft heimild til að skuldbinda LSR með þeim hætti, samningarnir eigi hvorki stoð í lögum né í stofnanasamningi ríkislögreglustjóra og landssambands lögreglumanna. Samningarnir hafi verið gagngert gerðir til að tryggja lögregluþjónum stóraukin lífeyrisréttindi á kostnað LSR og mögulega ríkissjóðs. Vegna þessa byggist þeir ekki á lögmætum sjónarmiðum og séu því ógildanlegir.

Sigríður staðfesti í samtali við fréttastofu RÚV að hún hafi tilkynnt yfirmönnum hjá embættinu að hún hyggist vinda ofan af samkomulaginu sem Haraldur gerði við þá og ákvarða að nýju launasamsetningu í B-liði launaflokka í samræmi við lög, kjarasamninga og stofnanasamninga. Lögreglumennirnir hafa tvær vikur til að skila inn andmælum. Ekki náðist í Sigríði Björk við gerð þessarar fréttar.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.