Enski boltinn

Ensku blöðin samstíga í fyrirsögnum: Næst á dagskrá að ná í Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pep Guardiola í viðtali hjá City TV eftir að hann skrifaði undir nýjan samning.
Pep Guardiola í viðtali hjá City TV eftir að hann skrifaði undir nýjan samning. Getty/Matt McNulty

Pep Guardiola framlengdi samning sinn við Manchester City í gær sem þykir auka líkurnar á því að Lionel Messi komi til Manchester City í sumar.

Gærdagurinn var góður dagur fyrir stuðningsmenn Manchester City eftir að Pep Guardiola skrifaði undir tveggja ára framlengingu og verður því knattspyrnustjóri City til 2023 að minnsta kosti.

Samkvæmt Guillem Balague, sérfræðingi breska ríkisútvarpsins í spænska boltanum, þá var Pep Guardiola aldrei nálægt því að yfirgefa Manchester City næsta sumar.

„Það voru tilboð frá Juventus, Paris Saint-Germain og fleiri liðum en hann er ánægður. Hann nýtur sín hjá Manchester City og er umkringdur fólki sem hann treystir,“ sagði Guillem Balague í viðtali við BBC Radio 5 Live.

„Hann er líka ánægður með það að ekkert sem gerist inn í búningsklefanum hjá Manchester City leki út í fjölmiðla eins og gerðist ítrekað hjá bæði Bayern og Barcelona,“ sagði Guillem Balague.

Ensku blöðin voru líka mörg búin að lesa næsta leik hjá Manchester City sem er að ná í Lionel Messi þegar samningur Argentínumannsins við Barcelona rennur út í sumar.

Messi og Guardiola eru líklegir til að vilja vinna aftur saman eftir frábæra tímann sem þeir áttu hjá Barcelona á árum áður.

Hér fyrir neðan má sjá ensku blöðin vera samstíga í fyrirsögnum um að það sé næst á dagskrá hjá Manchester City að ná í Lionel Messi.

Forsíða The Daily Express.Skjámynd/The Daily Express
Forsíða Daily Mirror.Skjámynd/Daily Mirror



Fleiri fréttir

Sjá meira


×