Fótbolti

Tveir leikmenn hjá Steven Gerrard dæmdir í sjö leikja bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
 Jordan Jones og George Edmundson eru góðir félagar en hefðu betur sleppt þessu partýstandi sínu á dögunum.
 Jordan Jones og George Edmundson eru góðir félagar en hefðu betur sleppt þessu partýstandi sínu á dögunum. Getty/Bill Murray

Rangers leikmennirnir Jordan Jones og George Edmundson hafa verið dæmdir í sjö leikja bann í Skotlandi fyrir brot á sóttvarnarreglum.

Steven Gerrard og Rangers ætla ekki að áfrýja banni leikmannanna sinna sem fóru í partý eftir 1-0 sigur liðsins á Kilmarnock þann 1. nóvember síðastliðinn.

Jordan Jones er 26 ára gamall og George Edmundson er 23 ára gamall.

Skoska knattspyrnusambandið kærði leikmennina þegar fréttir af partýför þeirra og Rangers setti þá strax í agabann á meðan rannsókn málsins stóð.

Í yfirlýsingu frá Rangers kemur fram að lengd bannsins sýni hversu miklar afleiðingar það hefur að brjóta sóttvarnarreglur á tímum kórónuveirunnar.

Þetta er samt ekki mikið áfall fyrir Steven Gerrard þó að leikmennirnir megi ekki spila fyrr en á móti St. Mirren 30. desember næstkomandi.

Hvorki Jordan Jones og George Edmundson hafa verið fastamenn í liðinu hjá honum. Þeir hafa beðist afsökunar á hegðun sinni og lofað að gera svona ekki aftur.

Steven Gerrard hefur verið að gera frábæra hluti með Rangers liðið sem er með níu stig forskot á toppi skosku deildarinnar eftir 12 sigra, 2 jafntefli og ekkert tap í fjórtán fyrstu leikjunum.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.