Umfjöllun: England - Ísland 4-0 | Vonbrigðakvöld er Hamrén var kvaddur

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Már Sævarsson var rekinn af velli snemma í seinni hálfleik.
Birkir Már Sævarsson var rekinn af velli snemma í seinni hálfleik. Getty/Chloe Knott

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta kvaddi A-deild Þjóðadeildarinnar og Erik Hamrén landsliðsþjálfara með 4-0 tapi gegn Englandi á Wembley í kvöld.

England komst í 2-0 um miðjan fyrri hálfleik og var mikið betri aðilinn í leiknum. Ísland kveður því A-deildina án stiga en England varð næstneðst í riðlinum með 10 stig líkt og Danmörk. Belgía vann riðilinn, með 13 stig, og fer í úrslitakeppnina.

Hamrén hafði kallað inn fimm leikmenn úr U21-landsliðinu í landsliðshópinn, eftir brotthvarf nokkurra lykilleikmanna. Sveinarnir ungu fengu allir sæti á varamannabekknum og byrjunarliðið var nokkuð reynslumikið, í 5-3-2 kerfinu sem Hamrén hefur prófað í Þjóðadeildinni. Það dugði þó skammt gegn einu besta landsliði Evrópu.

Mason Mount kemur Englandi í 2-0. Ögmundur Kristinsson átti mjög góðan leik en kom engum vörnum við þarna.Getty/Carl Recine

Það segir sína sögu um fyrri hálfleikinn að staðan eftir hann var 2-0 og Ögmundur Kristinsson var langbesti leikmaður íslenska liðsins. Englendingar voru með boltann nánast allan tímann og sköpuðu sér fullt af góðum færum, á meðan að Íslandi tókst ekki að reyna á Jordan Pickford í marki heimamanna.

Ögmundur bestur en af velli í hálfleik

Englendingar komust yfir með frekar einföldum hætti, upp úr aukaspyrnu sem dæmd var eftir þreytulegt brot Guðlaugs Victors Pálssonar á Jack Grealish. Phil Foden tók spyrnuna og sendi inn á miðjan vítateig þar sem Declan Rice fékk að skalla boltann einn og óvaldaður í fjærhornið.

Ögmundur varði stórkostlega frá Bukayo Saka nánast strax í kjölfarið, og aðeins fjórum mínútum eftir að hafa komist yfir náðu Englendingar að tvöfalda forskot sitt. Aftur virtist fjölskipuð vörn Íslands hálfsofandi og Mason Mount nýtti sér það, fór framhjá Birki Bjarnasyni og skoraði auðveldlega úr teignum.

Erik Hamrén var á hliðarlínunni hjá íslenska landsliðinu í síðasta sinn í kvöld.Getty/Ian Walton

Ögmundur varði svo í tvígang frábærlega frá Foden, sem mættur var á ný í byrjunarlið Englands eftir að hafa verið rekinn úr herbúðum enska liðsins í Íslandsförinni í september.

Það kom því kannski einhverjum spánskt fyrir sjónir að Ögmundur skyldi tekinn af velli eftir fyrri hálfleik, en Hamrén hafði ákveðið fyrir leik að gefa Hannesi Þór Halldórssyni seinni hálfleikinn, sama hvernig Ögmundur stæði sig. Hannes jafnaði þar með leikjamet Birkis Kristinssonar yfir flesta landsleiki íslensks markmanns.

Bukayo Saka reyndist Birki Má Sævarssyni erfiður í kvöld.Getty/Michael Regan

Það syrti enn í álinn hjá íslenska liðinu á 54. mínútu þegar Birkir Már Sævarsson var rekinn af velli. Birkir fékk gult spjald snemma leiks fyrir brot á Saka, og annað gult spjald og þar með rautt eftir að hafa togað aðeins í Saka sem stefndi inn í vítateiginn og féll heldur auðveldlega til jarðar.

Foden mættur aftur og fór mikinn

Í stað þess að England nýtti liðsmuninn til að þrýsta enn frekar á íslenska liðið virtist rauða spjaldið róa leikmenn niður og rólegt var yfir seinni hálfleiknum.

Kári Árnason, sem lék líklega sinn kveðjuleik og bar fyrirliðabandið, komst þó nálægt því að minnka muninn með skalla eftir hornspyrnu Ara Freys Skúlasonar. Ísland hafði þá leikið í klukkutíma án þess að skapa sér færi og var þetta langbesta tilraun liðsins í leiknum.

Phil Foden var rekinn heim frá Íslandi en kom sterkur inn í byrjunarlið Englands á ný í kvöld.Getty/Chloe Knott

Títtnefndur Foden jók forystu Englands í 3-0 þegar tíu mínútur voru til leiksloka, með skoti úr teignum eftir undirbúning Jadon Sancho. Og Foden var ekki hættur því hann bætti við fjórða markinu með flottu skoti utan teigs skömmu síðar.

Ísak lék sinn fyrsta A-landsleik

Þegar komið var fram á 88. mínútu fékk hinn 17 ára gamli Ísak Bergmann Jóhannesson að koma inn á, í sínum fyrsta A-landsleik. Það breytti þó engu um gang leiksins og lokatölurnar, 4-0, gefa hárrétta mynd af leiknum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.