Fótbolti

Allir staðráðnir í að klára þetta almennilega fyrir Hamrén og Frey

Sindri Sverrisson skrifar
Erik Hamrén og Freyr Alexandersson tóku við landsliðinu haustið 2018 og hafa því stýrt því í rúmlega tvö ár. Síðasti leikur þeirra saman með liðið er í kvöld.
Erik Hamrén og Freyr Alexandersson tóku við landsliðinu haustið 2018 og hafa því stýrt því í rúmlega tvö ár. Síðasti leikur þeirra saman með liðið er í kvöld. vísir/vilhelm

„Ég held að flestir hafi verið að vona að þeir myndu halda áfram með þetta,“ segir Kári Árnason um þjálfarana Erik Hamrén og Frey Alexandersson fyrir kveðjuleikinn í kvöld.

Hamrén tilkynnti á laugardaginn að hann myndi hætta sem þjálfari íslenska landsliðsins. Lokaleikur þeirra Freys saman með liðið verður gegn Englandi á Wembley í kvöld, og það gæti sömuleiðis orðið síðasti landsleikur Kára sem verður með fyrirliðabandið.

„Fótboltinn er eins og hann er og svona gerist. Við erum allir á þeim vagni að klára þetta almennilega fyrir þá [Hamrén og Frey], og skila vonandi sigri og þremur stigum í hús fyrir þá,“ segir Kári í viðtali við Henry Birgi Gunnarsson.

Kári sagði á fréttamannafundi í gær að hann teldi gagnrýni á störf Hamréns og Freys hafa verið ómaklega. Leikmenn væru að minnsta kosti ánægðir með þeirra störf:

„Já, við erum það. Auðvitað viljum við komast á EM, einföldu leiðina í gegnum riðilinn. En ef þú sérð hvernig hann spilast, og hvað okkur vantaði mörg stig til að komast á EM, við hefðum þurft 24-25 stig sem hefur aldrei tekist hjá íslenska landsliðinu, þá er þetta mjög erfitt og ekkert má fara úrskeiðis,“ segir Kári.

Vissum að við værum með Tyrki í vasanum

Hann kveðst alltaf hafa verið sannfærður um að Ísland myndi fá fleiri stig en Tyrkland úr innbyrðis leikjum liðanna í undankeppni EM, sem gekk eftir, en Tyrkir náðu í fjögur stig gegn heimsmeisturum Frakka og komust á EM.

„Í öllum þessum riðlum sem við höfum spilað þá er eitthvað sem kemur manni á óvart. Það var Albanía á útivelli núna, Finnland á útivelli þar áður, en svo dettur þetta stundum manni í vil líka. Finnland náði jafntefli við Króatíu í undankeppni HM en núna fór þetta öfugt og Tyrkland náði jafntefli og sigri gegn Frökkum. Við vissum að við værum með Tyrki í vasanum og að ef þetta snerist um innbyrðis úrslit gegn þeim myndum við fara áfram. En svo er líka mikið af meiðslum, þetta er erfitt og við töpum á síðustu sekúndunum á móti Frakklandi með klaufalegu víti. Það var margt mjög gott í þessu,“ segir Kári, sem eins og fyrr segir er ánægður með störf Hamréns og Freys:

„Þetta er náttúrulega leikur skoðana og það hafa allir rétt á sinni skoðun. Ég fæ ekki borgað fyrir að koma með mínar skoðanir, en ég veit samt nokkurn veginn hvað ég er að tala um.“

Leikur Íslands og Englands hefst klukkan 19.45 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Upphitun hefst klukkan 19.00.

Klippa: Kári Árna um kveðjustund Hamréns og Freys

Tengdar fréttir

Kári: Þetta er búið að vera erfitt

Kári Árnason gæti leikið sinn síðasta landsleik í kvöld er Ísland mætir Englandi á Wembley. Hann segir að miklar tilfinningar hafi verið í mögulega hans síðustu landsliðsferð en hann útilokar þó ekkert.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.