Fótbolti

Kári ánægður með Hamrén og segir gagnrýnina ósanngjarna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári Árnason talaði vel um Erik Hamrén á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Englandi.
Kári Árnason talaði vel um Erik Hamrén á blaðamannafundi fyrir leikinn gegn Englandi. getty/Onur Coban

Kári Árnason ber Erik Hamrén vel söguna og segir að gagnrýnin sem hann hafi fengið sé ósanngjörn.

Hamrén stýrir íslenska landsliðinu í síðasta sinn þegar það mætir því enska á Wembley í Þjóðadeildinni annað kvöld. Hamrén tók við Íslandi haustið 2018 og var hársbreidd frá því að koma íslenska liðinu á EM á næsta ári.

„Ég held að allir í liðinu séu sammála um að hann hafi unnið mjög gott starf. Hann og Freyr [Alexandersson] eru kannski dæmdir ósanngjarnt,“ sagði Kári á blaðamannafundi Íslands í morgun.

Hann benti á að árangur Íslands í undankeppni EM hefði verið góður og undir venjulegum kringumstæðum dugað til að komast í lokakeppnina.

Íslendingar hafa hins vegar tapað öllum níu leikjum sínum í Þjóðadeildinni þar sem þeir hafa mætt mörgum af sterkustu liðum Evrópu.

„Svo erum við að spila í A-deild í þessari keppni. Er hægt að ætlast til að maður sé að klára Belgíu, Danmörku og England í hverjum leik? Þetta er rosalega erfitt verkefni og verið mikið um meiðsli þannig að gagnrýnin sem hefur komið á þessa þjálfara hefur verið óréttlát því þegar þetta hefur skipt máli voru þeir mjög fínir. Stigasöfnunin var góð en þetta féll ekki alveg fyrir okkur,“ sagði Kári sem verður fyrirliði íslenska liðsins í leiknum á morgun.

Leikur Íslands og Englands hefst klukkan 19:45 á morgun og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.