Erlent

Selja olíu­vinnslu­leyfi á verndar­svæði á loka­dögum Trump sem for­seta

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump forseti tekur í hönd Don Young, öldungadeildarþingmanns frá Alaska, til að fagna því að þeir opnuðu friðland í Alaska fyrir olíu- og gasvinnslu árið 2017.
Trump forseti tekur í hönd Don Young, öldungadeildarþingmanns frá Alaska, til að fagna því að þeir opnuðu friðland í Alaska fyrir olíu- og gasvinnslu árið 2017. Vísir/EPA

Ríkisstjórn Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta, ætlar að byrja að selja leyfi til olíuvinnslu á verndarsvæði í Alaska þrátt fyrir að nú séu aðeins um tveir mánuðir þar til ný ríkisstjórn tekur við völdum. Leyfin opna stórt svæði við Norður-Íshafið fyrir olíu- og gasvinnslu.

Trump forseti hefur lengi haft hug á að leyfa jarðefnaeldsneytisfyrirtækjum að hefja vinnslu á Norðurskautsdýraverndarsvæðinu í Alaska. Það er ein stærstu ósnortnu víðerni Bandaríkjanna, um átta milljón hektarar lands.

Leyfin sem nú verða seld ná til um 600.000 hektara lands við Norður-Íshafsströnd Alaska. Landnýtingarstofnun Bandaríkjanna auglýsti í dag eftir umsóknum frá olíu- og gasfyrirtækjum um leyfi fyrir leit á svæðum sem þau telja henta til leitar og vinnslu, að sögn New York Times.

Sala á fyrstu leyfunum gæti í fyrsta lagi átt sér stað í kringum 17. janúar, aðeins þremur dögum áður en Joe Biden, verðandi forseti, tekur við embætti. Líklegt er talið að stofnunin líti fram hjá umsögnum sem berast og opni allt svæðið fyrir leit- og vinnslu þegar í stað. Vanalega hefur það tekið mánuði að fara yfir umsagnir og tilgreina hvaða svæði skulu seld undir olíu- eða gasvinnslu.

Verði leyfin seld gæti ríkisstjórn Biden tekið söluna til endurskoðunar. Að henni lokinni gæti hún kosið að draga leyfin til baka.

Frá Norðurskautsdýraverndarsvæðinu í Alaska, einum stærstu ósnortnu víðernum sem eftir eru í Bandaríkjunum.Vísir/EPA

Trump og repúblikanar á Bandaríkjaþingi afnámu friðun á strandlengju verndarsvæðisins árið 2017. Talið er að milljónir tunna af olíu geti verið að finna á svæðinu. Engu að síður er óljóst hversu mikil áhugi er á svæðinu hjá fyrirtækjum í iðnaðinum. Minnst tíu ár gæti tekið að hefja olíuvinnslu en þá er búist við því að eftirspurn eftir jarðefnaeldsneyti gæti hafa dregist saman vegna aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Hagsmunasamtök olíufyrirtækja fögnuðu engu að síður ákvörðun Trump-stjórnarinnar um að byrja söluferlið. Það muni skapa vel borguð störf í Alaska.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.