Fótbolti

Hamrén hló að spurningunni um Álaborg

Sindri Sverrisson skrifar
Erik Hamrén á hliðarlínunni á Parken í gærkvöld á sínum næstsíðasta leik sem landsliðsþjálfari Íslands.
Erik Hamrén á hliðarlínunni á Parken í gærkvöld á sínum næstsíðasta leik sem landsliðsþjálfari Íslands. Getty/Lars Ronbog

Erik Hamrén, fráfarandi landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta, gæti verið að taka við danska úrvalsdeildarfélaginu AaB þegar hann lætur af störfum fyrir KSÍ.

Hamrén hló þegar hann var spurður hvort hann tæki við AaB, eftir 2-1 tapið gegn Danmörku í Þjóðadeildinni í gærkvöld:

„Það hefur allt sinn tíma. Ég veit ekki hvað ég geri. Ég er ekki með neitt í gangi núna og hef ekki verið í sambandi við neitt félag. Við sjáum hvað gerist í framtíðinni,“ sagði Hamrén sem var þá spurður hvort að hann útilokaði að taka við AaB. „Haha, við sjáum hvað gerist,“ svaraði Hamrén.

Hamrén tilkynnti um helgina að hans síðasti leikur sem þjálfari Íslands yrði gegn Englandi á miðvikudaginn. Hann hefur stýrt liðinu frá haustinu 2018.

Þessi 63 ára gamli Svíi er nú orðaður við AaB í Álaborg en þar var hann við stjórnvölinn á árunum 2004-2008. Liðið varð Danmerkurmeistari á lokaárinu, og Hamrén fór svo til Rosenborg þar sem hann varð norskur meistari áður en hann sneri sér að þjálfun sænska landsliðsins.

AaB er í þjálfaraleit eftir að Jacob Friis hætti vegna veikinda dóttur sinnar. Inge André Olsen, íþróttastjóri AaB, viðurkenndi í samtali við bold.dk um helgina að Hamrén væri í miklum metum í Álaborg en vildi ekkert segja til um hvort hann kæmi til greina sem næsti þjálfari liðsins.

AaB er í 6. sæti af liðunum 12 í dönsku úrvalsdeildinni, eftir átta umferðir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×