Fótbolti

Norðmenn mæta til leiks með varalið, þrettán nýliða og engan Lars

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lars Lagerbäck og allir lykilmenn norska landsliðsins þurfa að horfa á leikinn gegn Austurríki á miðvikudaginn í sjónvarpinu.
Lars Lagerbäck og allir lykilmenn norska landsliðsins þurfa að horfa á leikinn gegn Austurríki á miðvikudaginn í sjónvarpinu. getty/Trond Tandberg

Noregur mætir til leiks með ansi breytt lið gegn Austurríki í lokaleik sínum í riðli 1 í B-deild Þjóðadeildarinnar í Vín á miðvikudaginn.

Leik Noregs og Rúmeníu í gær var aflýst vegna kórónuveirusmits í herbúðum norska liðsins. Eftir að Omar Elabdellaoui, varafyrirliði norska liðsins, greindist með veiruna var norski hópurinn og þjálfarateymið sett í sóttkví.

Norsk heilbrigðisyfirvöld gáfu liðinu ekki undanþágu til að ferðast til Rúmeníu og því var leikurinn í gær blásinn af.

Noregur á að mæta Austurríki í Vín á miðvikudaginn og mætir þangað með algjörlega nýtt lið.

Til að leikurinn gæti farið fram þurftu Norðmenn að smala saman í nýtt lið með skömmum fyrirvara. Þeir settu saman eins konar neyðarhóp en þrettán af átján leikmönnum í honum eru nýliðar. Mats Møller Dæhli, leikmaður Genk í Belgíu, er langleikjahæstur í þessum nýja norska hóp með 23 landsleiki. Næstreyndasti leikmaðurinn, Jørgen Skjelvik, á sjö landsleiki á ferilskránni.

Lars verður fjarri góðu gamni á miðvikudaginn og stýrir Leif Gunnar Smerud norska liðinu í hans stað. Smerud er þjálfari norska U-21 árs landsliðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×