Sjónvarps- og útvarpsmaðurinn Tómas Þór Þórðarson nefndi Steve McClaren, fyrrum landsliðsþjálfara Englands, óvænt sem mögulegan arftaka Erik Hamrén hjá íslenska landsliðinu í útvarpsættinum Fótbolti.net sem er að venju á dagskrá X-977 á laugardögum frá 12.00 til 14.00.
Hamrén tilkynnti þjóðinni að hann myndi hætta sem þjálfari íslenska landsliðsins eftir leikinn gegn Englandi í Þjóðadeildinni á miðvikudaginn kemur.
Mörg íslensk nöfn voru nefnd en Tómas Þór fór á stúfana og athugaði hvort Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, gæti þekkt einhverja erlenda menn sem gætu tekið starfið að sér.
Í kjölfarið kom nafn McClaren upp sem var síðast við stjórnvölin hjá QPR í ensku B-deildinni en hann hefur verið án félags síðan á síðasta ári.
Hinn 59 ára gamli McClaren stýrði enska landsliðinu frá 2006 til 2007. Eftir það hefur hann stýrt liðum í Hollandi, Þýskalandi ásamt Newcastle United og Derby County til að mynda.
Það verður allavega áhugavert að sjá hver tekur við íslenska liðinu og hver veit nema McClaren og regnhlífin góða verði á hliðarlínunni á Laugardalsvelli næsta sumar.
Þáttinn má hlusta á í heild sinni hér að neðan.