Innlent

Mikilvægt að Íslendingar standi saman

Samúel Karl Ólason skrifar

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sagði reyna á Íslendinga og nú þurfi þeir að sýna hvað í þeim búi. Hann sagði skipta miklu máli að sýna styrk og samstöðu og lagast að aðstæðum.

Þetta sagði Guðni í Bítinu á Bylgjunni og morgunsjónvarpi Stöðvar 2 og Vísis. Horfa má á spjallið við Guðna hér að ofan.

Guðni sagði heimilislífið á Bessastöðum háð samkomubanninu og börn á grunnskólaaldri væru heima við. Þá hefði öllum fundum forsetans verið aflýst.

„Þetta eru erfiðir dagar og við tökumst á við það að jafnaðargeði og reynum að lagast að aðstæðum,“ sagði Guðni. Hann sagði skrifstofu forsetans bera merki þessa tíma og að allir sem hefðu tök á ynnu að heiman.

„Nú reynir á okkur og nú sýnum við hvað í okkur býr.“

Guðni segist fylgjast með nýjustu vendingum vegna útbreiðslu nýju kórónuveirunnar sem veldur Covid-19 og lýsti hann yfir mikilli ánægju með og trausti á störf þeirra sem standa í framlínunni.

„Það sem er gott að finna líka er hversu breið samstaða er meðal landsmanna um það að við fylkjum okkur á bakvið þessa framvarðarsveit. Þökkum þeim. Mig langar líka að þakka öllu heilbrigðisstarfsfólki fyrir allt þeirra starf núna. Það er unnið myrkranna á milli.“

Hann sendi einnig góðar batakveðjur til þeirra sem er lasið vegna veirunnar.

Sýna að við viljum láta gott af okkur leiða

„Það skiptir svo miklu máli núna að við sýnum þennan styrk og þessa samstöðu sem verður að svo miklu gagni. Það finnst mér einna mikilvægasta að sá eða sú sem að í þessu embætti er, sem ég gegni núna, geri. Að við reynum að fá fólk til að standa saman.“

Guðni sagði að ekki mætti taka þessari veiru af léttúð. Hún væri virkilega skæð. Á sama tíma mætti fólk þó ekki missa sig í angist og óðagot.

Guðni sagðist ánægður með sjálfsprottinn anda í samfélaginu og nefndi nokkur dæmi þess að Íslendingar væru að leggjast á eitt.

„Við erum að sýna að við viljum láta gott af okkur leiða.“

Guðni sagðist vonast til þess að þegar Íslendingar líti um öxl eftir 20, 30 ár, geti Íslendingar verið stoltir af því hvernig til tókst gegn veirunni.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×