Innlent

Hvetja al­menning til að skrá­setja og senda inn minningar og upp­lifanir um far­aldurinn

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Við lifum ansi óvenjulega tíma. Það er til dæmis frekar óvenjulegt að heilbrigðisstarfsmenn klæðist hlífðargalla frá toppi til táar og taki sýni úr fólki úti í bíl svo hægt sé að kanna hvort viðkomandi sé smitaður af kórónuveirunni.
Við lifum ansi óvenjulega tíma. Það er til dæmis frekar óvenjulegt að heilbrigðisstarfsmenn klæðist hlífðargalla frá toppi til táar og taki sýni úr fólki úti í bíl svo hægt sé að kanna hvort viðkomandi sé smitaður af kórónuveirunni. vísir/vilhelm
Handritasafn Landsbókasafns Íslands hvetur almenning til þess að skrifa niður minningar sínar og upplifanir af faraldri kórónuveirunnar sem veldur sjúkdómnum COVID-19.

Um sögulega tíma sé að ræða og persónuleg gögn fólks geti nýst vel fræðimönnum og öðrum sem munu rannsaka faraldurinn og þennan tíma í framtíðinni.

Rætt er við Braga Þorgrím Ólafsson, fagstjóra handritasafnsins, í Fréttablaðinu í dag.

Þar segir hann að það sé um að gera fyrir fólk sem sé í sóttkví og hefur kannski lítið að gera að setja eitthvað niður á blað og senda til safnsins.

Hann ítrekar þó að safnið sé að leita eftir efni frá öllum, ekki bara þeim séu veikir eða í sóttkví.

Bragi segir skriflegar heimildir bestar til að tryggja varðveislu. Hann nefnir sem dæmi í þessu sambandi dagbókarfærslur, útprentaða tölvupósta um röskun á skólastarfi sem og skjáskot af færslum á samfélagsmiðlum.

Efnið sem fólk skili til safnsins geti þannig fjallað um ástandið sem hefur skapast í verslunum, veikindi í fjölskyldunni eða bara hvers konar hugleiðingar eða upplifanir um faraldurinn.

Hægt sé að setja lokunarskilmála, það er að segja að gögning sem fólk sendir inn verði ekki aðgengileg fyrr en eftir ákveðinn tíma, að hámarki 80 ár.

Þá geti fólk sem hefur sent inn gögn alltaf farið á safnið til að skoða þau síðar meir.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.