Fótbolti

Kári: Skelfilegt að þetta sé hugsanlega síðasta verkefnið mitt fyrir þetta lið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári Árnason í viðtali eftir leikinn í Búdapest.
Kári Árnason í viðtali eftir leikinn í Búdapest. Getty/Laszlo Szirtesi

„Það er erfitt að lýsa þessu. Þetta eru miklar tilfinningar og erfitt að sætta sig við að þetta endi svona fyrir mig, og fyrir allt liðið. Út frá sjálfum mér er skelfilegt að þetta sé hugsanlega síðasta verkefnið mitt fyrir þetta lið,“ sagði Kári Árnason eftir tap Íslands fyrir Ungverjalandi, 2-1, í umspili um sæti á EM í kvöld.

Kári er nýorðinn 38 ára og finnst líklegra en ekki að landsliðsferlinum sé lokið.

„Eins og ég hef alltaf sagt, ef kallið kemur mæti ég. En mér finnst það ólíklegt,“ sagði Kári.

Íslenska liðið var 0-1 yfir þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Þá jöfnuðu Ungverjar og skoruðu svo sigurmarkið í uppbótartíma.

„Maður heldur aldrei að maður sé kominn með þetta. Þetta var aldrei þægilegt. Við vörðumst of aftarlega. Það var heppnisstimpill yfir jöfnunarmarkinu og þeir þurftu eitthvað svoleiðis til að skora. Mér fannst við ráða vel við allt og þeir fengu fá skottækifæri. Við reyndum að færa okkur framar en það var voða lítið eftir. Þetta var rosalega erfitt eiginlega frá og með 20. mínútu. Menn voru svolítið á síðustu metrunum,“ sagði Kári.

„Það þurfti heppnismark. Við hefðum kannski átt að vera fleiri bak við boltann og ekki fá á okkur skyndisókn í stöðunni 1-1. En oft verður maður að „gambla“ og það munaði ekki miklu að Albert [Guðmundsson] setti hann inn í stöðunni 0-1. Þetta er grátlegt, bara hrikalegt.“

Ísland á tvo leiki eftir í þessari landsleikjahrinu, gegn Danmörku og Englandi.

„Við eigum auðvitað tvo leiki eftir, eins erfitt og það er. Við verðum að standa þá vakt eins og menn svo við verðum í betri stöðu fyrir dráttinn í undankeppni HM. Ég er ekkert að segja að ég sé hættur í fótbolta en mér finnst ólíklegt að ég haldi áfram í landsliðinu eftir þetta verkefni, eins og staðan er núna. Það er langt í næsta mót, ekki nema það séu til einhverjar undratöflur sem geta framlengt ferilinn. Ég ætla ekki að afskrifa neitt en þetta eru miklar tilfinningar og erfitt að tala um þetta,“ sagði Kári.


Tengdar fréttir

Hannes: Aldrei verið jafn sorg­mæddur eftir tap

„Ég held að ég hafi aldrei verið jafn sorgmæddur eftir tap á fótboltaleik,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður, eftir tapið grátlega í Ungverjalandi í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×