Innlent

Óttast að Sjálfstæðismenn láti sína villtustu drauma rætast

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Logi Einarsson, Samfylkingarinnar, óttast að Sjálfstæðismenn muni nýta krepputíma og hefja umfangsmikla sölu á ríkiseignum.
Logi Einarsson, Samfylkingarinnar, óttast að Sjálfstæðismenn muni nýta krepputíma og hefja umfangsmikla sölu á ríkiseignum. Vísir/anton

Formaður Samfylkingarinnar óttast að kreppuástand verði nýtt til sölu ríkiseigna og segir Keflavíkurflugvöll eiga að vera í höndum ríkisins. Viðskiptaráð telur að fara eigi að tillögum OECD og selja völlinn.

Í skýrslu OECD sem var kynnt í gær kemur fram að ekkert flugvallarekstrarfélag í Evrópu sé rekið með óhagkvæmari hætti en Isavia og lagt er til að Keflavíkurflugvöllur verði seldur. Aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs segir niðurstöðuna sláandi.

„Sérstaklega þar sem tekið er tillit til séríslenkra þátta; eins og stærðar og veðurs og það er borið saman við sambærileg tilfelli. Allt ber þó að sama brunni að reksturinn er óhagkvæmur. Það er mikið áhyggjuefni og ég held að þurfi að skoða tillögurnar gaumgæfilega,“ segir Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.

Hann telur að nýta eigi rólegt ástand í ferðaþjónstu til að leggja mat á stöðuna og heimildir rekstraraðila til ýmissar gjaldtöku. „Það þyrfti að skoða regluverkið í kringum það, og koma öðrum aðilum að, sem hafa meiri hvata til að ná kostnaðinum við þjónustuna niður,“ segir Konráð.

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.vísir/Sigurjón

Ferðamálaráðherra sagðist í kvöldfréttum í gær telja að hleypa eigi fjárfestum inn í reksturinn, en ítrekaði að málið heyrði ekki undir hennar ráðuneyti. Isavia er að fullu í eigu ríkisins en félagið er þó rekið á eigin ábyrgð og rekstur Keflavíkurflugvallar verið staðið undir sér og rúmlega það.

Formaður Samfylkingarinnar telur völlinn eiga að vera í höndum ríkisins.

„Þetta er gríðarlega mikilvægt fyrirtæki upp á öryggi, upp á samgöngur, upp á allt okkar kerfi. Og þetta er í einokunarstöðu og ríkið á að eiga slík fyrirtæki. En það má vissulega laga ýmislegt,“ segir Logi Einarsson.

„Ég óttast hins vegar að núna verði þetta kreppuástand notað til þess að Sjálfstæðisflokkurinn reyni einhvern veginn að koma sínum villtustu draumum í framkvæmd. Að selja allar mögulegar og ómögulegar eignir í opinberri eigu,“ segir Logi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.