Erlent

Þúsundir flýja undan átökum í Eþíópíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Íbúar Eþíópíu lesa um átökin í Tigrayhéraði í dagblöðum. Takmarkaðar upplýsingar berast þaðan.
Íbúar Eþíópíu lesa um átökin í Tigrayhéraði í dagblöðum. Takmarkaðar upplýsingar berast þaðan. AP/Samuel Habtab

Þúsundir íbúa Eþíópíu hafa flúið til Súdan vegna átaka í Tigrayhéraði á milli hersveita ríkisstjórnarinnar og ráðandi fylkinga í héraðinu. Utanaðkomandi aðilum er ekki hleypt í héraðið og búið er að loka á samskipti þaðan. Þess vegna hafa litlar fregnir borist af átökunum.

Mannréttindasamtök segja þar að auki að búið sé að handtaka blaðamenn sem hafa reynt að ferðast til Tigray.

Þrátt fyrir það hafa fregnir borist af því hundruð hafi fallið í átökunum, samkvæmt fréttum Reuters fréttaveitunnar.

Um fimm milljónir manna búa í Tigray en þar er mikið fjallendi.

Stjórnarflokkurinn í Tigray, Frelsisfylkingin, var áður með tögl og hagldir í eþíópískum stjórnmálum, en hefur orðið sífellt jaðarsettari í landinu frá því að Abiy Ahmed tók við embætti forsætisráðherra Eþíópíu árið 2018.

Dr. Debretsion Gebremichael er forseti Tigray.EPA/STR

Abiy hlaut friðarverðlaun Nóbels á síðasta ári fyrir vinnu sína við að binda endi á áralöng átök Eþíópíu og Erítreu.

Í samtali við AFP fréttaveituna segir yfirmaður flóttamannastofnunar Súdan að meðal þeirra sem hafi flúið þangað frá Eþíópíu séu hermenn. Minnst 2.500 flóttamenn hafi verið skráðir á undanförnum tveimur dögum og enn eigi eftir að skrá nokkur hundruð til viðbótar.

Sameinuðu þjóðirnar segja þó að um sjö þúsund manns hafi flúið til Súdan og óttast sé að þeim muni fjölga verulega.

Abiy ákvað fyrr í vikunni að gera ætti loftárásir í héraðinu og sagði hann að um löggæsluaðgerðir væri að ræða. Hann hefur neitað að hefja viðræður við Frelsisfylkinguna, þvert á ráðleggingar Sameinuðu þjóðanna og nágrannaríkja.

Sameinuðu þjóðirnar, Afríkubandalagið og aðrir aðilar hafa kallað eftir vopnahléi en Abyiy er sagður staðráðinn í því að brjóta Frelsisfylkinguna á bak aftur.

Í tístum sem hann birti í gær hét Abyiy því að leiðtogum Frelsisfylkingarinnar yrði refsað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×