Ungverjar glöddust í gærkvöld þegar ljóst varð að ungstirnið Dominik Szoboszlai gæti þrátt fyrir allt spilað gegn Íslandi í úrslitaleiknum um sæti á EM í fótbolta á fimmtudagskvöld.
Szoboszlai var settur í sóttkví líkt og aðrir leikmenn Red Bull Salzburg í Austurríki, eftir að sex af átta landsliðsmönnum í herbúðum félagsins greindust með kórónuveiruna um helgina.
Þessi niðurstaða úr skimun mun hafa komið forráðamönnum Salzburg á óvart þar sem að ekkert smit hafði greinst í skimun á föstudagsmorgun. Allir voru teknir í aðra skimun í gær og seint í gærkvöldi kom niðurstaða úr henni, þar sem sýni allra leikmanna reyndust neikvæð.
Samkvæmt yfirlýsingu Red Bull Salzburg ætlar félagið nú að skoða hvers vegna þessi mikli munur var á niðurstöðum skimunar. Félagið kvaðst ætla að bregðast strax við og hleypa leikmönnum sínum í landsliðsverkefni.
Ungverska knattspyrnusambandið staðfesti á Twitter-síðu sinni að Szoboszlai gæti núna komið til móts við félaga sína í landsliðinu. Sjálfur skrifaði Szoboszlai einföld skilaboð til sinna fylgjenda á Instagram, undir myllumerkinu #FreeSzoboszlai: „Ég er að koma.“ Ekki seinna vænna þar sem leikurinn við Ísland er eftir tvo daga.
HES COMING HOME #FreeSzoboszlai pic.twitter.com/qeOuHo1LrL
— Kris (@xtinap1) November 9, 2020
Szoboszlai hefur áður sagt að leikurinn við Ísland sé sá mikilvægasti á sínum ferli til þessa. Þessi tvítugi kant- og miðjumaður skoraði 9 mörk og lagði upp 14 í austurrísku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Hann hefur skorað fjögur mörk í fimm leikjum í Meistaradeild Evrópu í haust.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.