Fótbolti

„Best að halda öllum öruggum“

Sindri Sverrisson skrifar
Laust pláss er í byrjunarliði Íslands eftir að Arnór Ingvi Traustason neyddist til að sleppa komandi landsleikjum.
Laust pláss er í byrjunarliði Íslands eftir að Arnór Ingvi Traustason neyddist til að sleppa komandi landsleikjum. vísir/hulda margrét

Arnór Ingvi Traustason segir það hundfúlt en rétta ákvörðun að hann skyldi vera tekinn út úr íslenska landsliðshópnum sem mætir Ungverjalandi á fimmtudag í úrslitaleik um sæti á EM.

Arnór fór ekki til móts við íslenska landsliðið í dag eins og til stóð vegna þess að liðsfélagi hans hjá Malmö í Svíþjóð greindist í gær með kórónuveirusmit.

Ómar Smárason, fjölmiðlafulltrúi landsliðsins, sagði við Vísi að ákvörðunin um að Arnór kæmi ekki til móts við landsliðið væri komin frá þjálfurum landsliðsins. Arnór segist í samtali við Fótbolta.net hafa rætt málið vel við þjálfarana.

„Það hefur verið tilhlökkun fyrir þessum leik lengi og skyndilega er honum kippt frá manni. Maður er auðvitað hundfúll,“ segir Arnór, sem um leið er sammála ákvörðuninni:

„Við viljum ekki taka neina áhættu, ég gæti verið með veiruna og smitað út frá mér og valdið usla með því. Það er best fyrir alla að halda öllum öruggum og mér sjálfum líka. Það er besta ákvörðunin sem hægt var að taka núna,“ segir Arnór við Fótbolta.net.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×