Innlent

Ógnvænleg fjölgun ofbeldisbrota gegn konum

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra. vísir/Vilhelm

Forsætisráðherra segir ofbeldisglæpum gegn konum hafa fjölgað á ógnvænlegan hátt í faraldrinum. Rætt var um heimilisofbeldi á fundi heimsráðs kvenna í leiðtogastöðum í dag.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, stýrði ársfundi Heimsráðs kvenleiðtoga í Hörpu í dag. Fundurinn er rafrænn þetta árið en hann er þó sá fjölmennasti í 24 ára sögu ráðsins.  Alls taka yfir sex hundruð kvenleiðtogar frá yfir eitt hundrað löndum þátt.

Sérstök umræða var um heimilisofbeldi í kórónuveirufaraldrinum á ráðstefnunni í dag. „Við erum að sjá gríðarlega aukningu á því sviði vegna heimfaraldursins. Þar sem aðgerðir eins og útgöngubann virðast vera hafa þau áhrif að það er óhugnaleg fjölgun ofeldisglæpa gegn konum,“ segir Katín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Samkvæmt grein Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýru UN Women, hafa um 243 milljónir kvenna og stúlkna á aldrinum 15 til 49 ára orðið fyrir ofbeldi af hálfu maka á síðustu tólf mánuðum. Þá bendi nýjustu úttektir og rannsóknir til þess að þrír mánuðir af útgöngubanni þýði að 15 milljónir kvenna og stúlkna verði beittar kynbundnu ofbeldi.

„Við vorum fyrst og fremst að ræða stöðuna og hvað alþjóðasamfélagið getur gert til að bregðast við. Það er mikilvægt að hafa kvennavíddina í huga í öllum aðgerðum,“ segir hún og bætir við að þar sé lykilatriði að ná að halda skólum opnum. „Þannig að börn geti farið í skóla og foreldrar til vinnu.“ 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×