Þeir 20 þúsund miðar sem settir voru í sölu á úrslitaleik Ungverjalands og Íslands, um sæti á EM karla í fótbolta, seldust fjótt upp. Nú er hins vegar ljóst að engir áhorfendur verða á leiknum.
Forsætisráðherra Ungverjalands, Viktor Orbán, boðaði í dag nýjar sóttvarnareglur í landinu sem taka eigi gildi á miðnætti annað kvöld.
Þar segir að íþróttaleikir megi aðeins vera spilaðir fyrir luktum dyrum, og á áhorfendabannið að gilda í mánuð. Þar með er allt útlit fyrir að engir áhorfendur verði á leiknum við Ísland eða tveimur leikjum sem Ungverjar spila í kjölfarið í Þjóðadeildinni. Reglur UEFA heimila að setið sé í þriðjungi sæta á leikjum á vegum sambandsins (Puskás Arena tekur 67.000 manns í sæti) en reglur í hverju landi trompa vitaskuld reglur UEFA.
Í reglugerðardrögum Ungverja segir einnig að allir eigi að halda sig heima frá kl. 20 á kvöldin og til 5 á morgnana, nema að brýna nauðsyn beri til. Leikhúsum, söfnum og líkamsræktarstöðvum verður lokað.
Uppfært: Knattspyrnusamband Ungverjalands hefur tilkynnt að miðar verði endurgreiddir. Ljóst er að leikið verður án áhorfenda.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.