Enski boltinn

Eder­son kemur Pick­ford til varnar eftir tæk­linguna á Van Dijk

Anton Ingi Leifsson skrifar
Tæklingin fræga.
Tæklingin fræga. John Powell/Liverpool FC/Getty Images

Ederson, markvörður Man. City, kemur Jordan Pickford, markverði Everton, til varnar eftir tæklingu hans á Virgil Van Dijk í síðasta mánuði.

Markvörðurinn segir að þetta geti komið fyrir alla og að markmenn, sem og aðrir leikmenn, geti lent í þessu því þeir hafi svo lítinn tíma til þess að taka ákvörðun.

„Fyrst og fremst, þá held ég að það stígi enginn leikmaður inn á völlinn til þess að meiða andstæðinginn. Stundum hefurðu brot úr sekúndu til að taka ákvörðun,“ sagði Ederson í samtali við Goal.

„Því miður lenti Pickford í þessu einvígi sem endaði í slæmum meiðslum. Þetta er einn hlutur fótboltans sem gerist stundum. Þetta hefði getað komið fyrir okkur alla,“ sagði Brasilíumaðurinn um tæklingu Pickford.

Brasilíumaðurinn lenti í einvígi við Sadio Mane í september 2017. Mane fékk rautt spjald og Ederson meiddist illa. Hann segir að það hafi ekki verið í huga Mane að meiða hann.

„Ég held að það hafi ekki verið í huga Pickford að meiða Van Dijk og sömu sögu má segja af Mane þegar hann lenti á mér fyrir nokkrum árum síðan. Þú hefur svo lítinn tíma til þess að taka ákvörðun og þetta getur kemur fyrir okkur alla.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×