Erlent

Starfsmaður kosninganna í felum eftir að hafa krumpað saman blað

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Vinnsla kjörseðla í Fulton-sýslu í Georgíu. Hvorugur starfsmannanna á myndinni er sá sem fjallað er um í fréttinni.
Vinnsla kjörseðla í Fulton-sýslu í Georgíu. Hvorugur starfsmannanna á myndinni er sá sem fjallað er um í fréttinni. Jessica McGowan/Getty

Starfsmaður sem kom að vinnslu kjörseðla í Atlanta í forsetakosningunum í Bandaríkjunum er nú í felum. Starfsmaðurinn hefur fengið fjölda hótana í kjölfar þess að myndband náðist af honum krumpa saman blað og henda því. Myndbandið varð kveikjan að ásökunum um að starfsmaðurinn ætti þátt í kosningasvikum.

Richard Barron, sem hefur yfirumsjón með skráningu og kosningastarfsemi í Fulton-sýslu í Georgíu, þar sem stór hluti Atlanta er, segir yfirvöld í sýslunni hafa skoðað myndbandið. Í ljós hafi komið að blaðið sem starfsmaðurinn henti hafi ekki verið kjörseðill, heldur blað sem fylgdi kjörseðlinum og innihélt leiðbeiningar um hvernig kjósendur ættu að bera sig að þegar kjörseðillinn er fylltur út.

Samkvæmt CNN sýnir myndbandið starfsmanninn, sem staðsettur er á stöð þar sem umslög utan um póstatkvæði eru skorin. Starfsmaðurinn sést taka blaðið, krumpa það saman og henda því í ruslið.

„Starfsmaðurinn gat á engum tímapunkti nálgast sjálfan kjörseðilinn. Ég hef stjórnað svona vél sjálfur,“ sagði Barron.

„Það eina sem maður gerir á þessari stöð er að aðskilja umslögin og skera þau. Kjörseðlarnir eru sóttir á næsta stigi ferlisins og það gera aðeins þeir starfsmenn sem hafa fengið það verkefni að telja kjörseðlana.“

Upplýsingar um starfsmanninn farið víða um vefinn

Barron segist hafa haft samband við starfsmanninn sem um ræðir, eftir að hafa horft á myndbandið. Starfsmaðurinn hafi tjáð honum að hann hafi yfirgefið heimili sitt og dveljist nú hjá vini sínum. Hann þori þá ekki að keyra sinn eigin bíl, þar sem upplýsingum um bílinn og númeraplötur hans hafi verið dreift á netinu.

„Hann er í felum því hann er búinn að fá hótanir. Hann er búinn að slökkva á öllum samfélagsmiðlareikningum sínum og öllum persónuupplýsingum um hann hefur verið dreift. Persónulega þykir mér þetta til skammar,“ hefur CNN eftir Barron.

Barron sagði þá að engar hótanir hefðu borist á skrifstofu hans og viðræður um að útvega starfsmanninum öryggisgæslu væru yfirstandandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×