Fótbolti

Gefur lítið fyrir meinta leti Messi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Lionel Messi.
Lionel Messi. vísir/Getty

Ronald Koeman, stjóri Barcelona, gefur lítið fyrir umræðu um það að aðalstjarna liðsins, Lionel Messi, sé latur og sinni ekki varnarvinnu.

Í fréttinni hér fyrir ofan má sjá myndband af Messi þar sem hann röltir um völlinn á lokamínútu leiksins gegn Dynamo Kiev í Meistaradeildinni í vikunni sem Barcelona vann 2-1.

„Ég sá þetta ekki á þann hátt og ég hef ekki áhuga á þessari umræðu. Ef þið viljið búa til umræðu í kringum þetta er það ykkar vandamál,“ segir Koeman.

„Messi er með gott hugarfar og nýtur þess að spila fótbolta. Hann er sigurvegari og stundum ferðu í gegnum tíma þar sem það gengur ekki allt upp en hann er mjög einbeittur.“

„Messi er mikilvægur okkar leik. Í þessum leik skoraði hann úr víti og við erum vanir því að hann geri gæfumuninn. Hann gerir það enn.“

„Þið getið klippt saman alls konar myndir eða myndbönd af hvaða leikmanni sem er og líka þjálfurum. Ættum við að hafa áhyggjur af því hvað þið klippið saman frekar en okkar vinnu? Ég held ekki,“ sagði Koeman ákveðinn.

Messi verður í eldlínunni í dag þegar Barcelona fær Real Betis í heimsókn í spænsku úrvalsdeildinni. Leikurinn hefst klukkan 15:15 og er sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×