Erlent

Allt útlit fyrir að meirihlutinn haldi í öldungadeildinni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mitch McConnell hefur leitt meirihluta repúblikana í öldungadeildinni undanfarin ár og mun líklega gera það áfram.
Mitch McConnell hefur leitt meirihluta repúblikana í öldungadeildinni undanfarin ár og mun líklega gera það áfram. AP/J. Scott Applewhite

Allt útlit er fyrir það repúblikanar muni áfram vera í meirihluta í öldungadeild Bandaríkjaþings. Demókrötum hefur aðeins tekið að bæta við sig einu sæti en hefðu þurft þrjú til fjögur, eftir því hver sigrar forsetakosningunum, til að ná meirihluta.

Fyrir kosningarnar voru repúblikanar með 53 sæta meirihluta gegn 47 sæta minnihluta demókrata. Eins og staðan er núna eru flokkarnir öruggir með 48 sæti hvor en eftir á að tilkynna sigurvegara í kosningum í fjórum ríkjum. Alls þarf 51 sæti til þess að vera í meirihluta í öldungadeildinni eða 50 sæti ef fulltrúi sama flokks situr í Hvíta húsinu, þar sem varaforsetinn getur greitt oddaatkvæði falli atkvæði jöfn í atkvæðagreiðslu í þinginu.

Ef Joe Biden verður kjörinn forseti þurfa Demókratar því að bæta við sig tveimur sætum til þess að ná meirihluta, en þremur endi það með því að Donald Trump, sitjandi forseti, nái endurkjöri.

Demókrötum tókst að velta sitjandi þingmönnum repúblikana úr sessi í Arizona og í Colorado en töpuðu sæti í Alabama.

Meirihlutinn heldur einnig í fulltrúadeildinni

Af þeim fjórum kosningum um öldungadeildasæti þar sem endanlegar niðurstöður liggja ekki fyrir leiða fulltrúar repúblikana í þremur, í Alaska, Georgíu og Norður-Karólínu. Fjórða sætið er einnig í Georgíu þar sem haldnar verða sérstakar aukakosningar um hver hreppir sætið, þar sem enginn frambjóðandi náði meirihluta atkvæða, líkt og reglur í Georgíu segja til um.

Vonir Demókrata um að ná í 50 sæti velta einna nú helst á á því að frambjóðandi þeirra í þessum aukakosningum nái kjöri og að einnig þurfi að halda aukakosningar um hitt sætið í Georgíu, þar sem fulltrúi Repúblikana er nú með 50,1 prósent atkvæða þegar 95 prósent atkvæða hafa verið talin.

Einnig er útlit fyrir að demókratar haldi meirihluta sínum í fulltrúadeildinni. Þar hafa repúblikanar þó sótt á og bætt við sig sex sætum. Ekki er þó útlit fyrir að það muni hagga meirihluta demókrata í deildinin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×