Frá­bær pressa Vals skilaði þeim örugg­lega á­fram í Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elín Metta Jensen átti góðan leik og fékk óvænt gefins mark frá markverði gestanna í dag.
Elín Metta Jensen átti góðan leik og fékk óvænt gefins mark frá markverði gestanna í dag. Vísir/Vilhelm

Leikur Vals og HJK frá Helsinki í Finnlandi í undankeppni Meistaradeildar Evrópu í dag. Valur byrjaði leikinn hreint frábærlega og gekk í raun frá finnska liðinu á rúmum hálftíma, staðan þá 3-0, reyndust það lokatölur leiksins. Valur því í pottinum er dregið verður í næstu umferð sem fer fram 18. og 19. nóvember.

Það var ljóst strax frá fyrstu mínútu að Valsliðið ætlaði sér að kaffæra gestina frá Finnlandi með góðri pressu. Í viðtölum fyrir leik ræddi til að mynda Eiður Ben Eiríksson, annar af þjálfurum Vals, að lið HJK vildi spila með jörðinni úr nær öllum aðstæðum.

Þrátt fyrir að hafa takmarkað getað æft fyrir leik dagsins vegna þess ástands sem nú ríkir á Íslandi þá var pressa Vals upp á tíu frá fyrstu mínútu. Þær gáfu gestunum engan grið og voru komnar yfir eftir aðeins átta mínútna leik. Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir lagði knöttinn þá í netið eftir undirbúning Hlínar Eiríksdóttur á hægri væng Vals. Hlín átti eftir að valda varnarlínu HJK allskyns vandræðum í dag.

Er gestirnir náðu að spila sig í gegnum fyrstu pressu Vals þá komust þeir einstaka sinnum í álitlegar sóknir en Sandra Sigurðardóttir og varnarlína Vals voru vel vakandi og stöðvuðu gestina þegar á reyndi.

Þegar 19. mínútur voru komnar á klukkuna var staðan orðin 2-0. Anna Koivunen, markvörður HJK, var þá alltof lengi að spyrna frá marki. Elín Metta Jensen steig fyrir sendinguna, fékk boltann í sig og þaðan fór hann í markið. Ótrúlegt mark miðað við mikilvægi leiksins.

Eftir rúman hálftíma var Mist Edvardsdóttir hársbreidd frá því að koma Val í 3-0 er Anna varði skot hennar úr þröngu færi í stöngina. Skömmu síðar kom Mist hins vegar Val í 3-0 með marki af vítapunktinum. Brotið hafði verið á Hlín innan teigs og vítaspyrna dæmd. Anna var ekki langt frá því að verja spyrnuna en inn fór boltinn og staðan orðin 3-0. Á þessum tímapunkti var erfitt að sjá gestina koma til baka og var staðan enn 3-0 er flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur var töluvert jafnari þó upplegg Vals væri hið sama og fyrr í leiknum. Liðið reyndi að pressa gestina við öll tilefni, allavega svona framan af. Eftir rúman klukkutíma leik fór að draga af Valsliðinu.

Þrátt fyrir álitlegar sóknir á báða bóga þá voru það eflaust Valsstúlkur sem fengu betri tækifæri til að gera út um leikinn. Dóra María Lárusdóttir og Hlín fengu gullin tækifæri til að bæta við mörkum. Það þurfti þó ekki á endanum þar sem leiknum lauk með 3-0 sigri þeirra.

Valur því komið áfram í undankeppni Meistaradeildar Evrópu og liðið í pottinum er dregið verður í næstu umferð. Verður hún leikin þann 18. og 19. nóvember næstkomandi. Verður forvitnilegt að sjá hvernig undirbúningi Vals verður háttað fyrir þann leik.

Viðtöl væntanleg von bráðar.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira