Erlent

Tala látinna hækkar eftir hryðjuverkaárás í Vínarborg

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar

Að minnsta kosti fjórir almennir borgarar, tveir karlmenn og tvær konur, létust í hryðjaverkaárás í Vínarborg í Austurríki í gærkvöldi. Frá þessu greinir AP-fréttastofan og hefur eftir heimildarmanni innan úr austurríska stjórnkerfinu.

Austurríska ríkisstjórnin hefur staðfest þetta. Einn af árásarmönnunum var skotinn til bana af lögreglu. Yfirvöld hvetja íbúa Vínarborgar til að halda sig heima í dag.

Sautján manns eru alvarlega slasaðir eftir árásina sem lýst er sem skotárás á að minnsta kosti sex stöðum í borginni. Sjö eru í lífshættu.

Fyrst hófst skothríð við samkomuhús gyðinga í miðborg Vínar um klukkan átta að íslenskum tíma. Skothríðin færðist síðan þaðan yfir á fleiri staði í miðborginni.

Á blaðamannafundinum í morgun kom fram að lögregluna gruni að fleiri en einn árásarmaður hafi verið að verki og leita nú að minnsta kosti að einum öðrum sem grunaður er um aðild að árásinni.

Árásarmaðurinn sem lögregla skaut til bana var með riffil og fleiri byssur á sér auk þess sem hann var með poka af skotum og sprengjubelti. Í ljós hefur komið að beltið var ekki alvöru sprengjubelti.

Á fundinum gátu yfirvöld ekki staðfest að árásin væri andgyðingleg en talið er að árásarmaðurinn sem lögregla skaut hafi verið íslamskur öfgamaður og hafi tengst Íslamska ríkinu.

Húsleit hefur verið gerð á heimili mannsins en á blaðamannafundinum var ekki farið nánar út í það hvað fannst við leitina. Þá hefur lögreglan til rannsóknar meira en 20 þúsund myndskeið af árásinni sem borist hafa frá almenningi.

Karl Nehammer, innanríkisráðherra Austurríkis, sagði á blaðamannafundinum að Austurríki væri lýðræði sem mótað væri af tjáningarfrelsinu og umburðarlyndi.

„Árásin í gær er árás á þessi gildi og ófullkomin tilraun til þess að sundra okkur. Við munum ekki láta þetta líðast. Það verða afleiðingar,“ sagði Nehammer á fundinum í morgun.

Árásin var gerð aðeins nokkrum klukkutímum áður en hertar samkomutakmarkanir vegna vegna kórónuveirufaraldursins tóku gildi í Austurríki.

Á miðnætti tók gildi útgöngubann frá klukkan átta á kvöldin til sex á morgnana. Gærkvöldið var því síðasta kvöldið í að minnsta kosti fjórar vikur sem íbúar Vínar gátu farið út á götur borgarinnar að kvöldi til. Það var því fjöldi fólks á ferðinni í miðborginni þegar árásin var gerð.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sendi Austurríkismönnum samúðarkveðjur í færslu á Twitter-síðu sinni í gærkvöldi.

Fréttin var uppfærð kl. 09:21.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×