Fótbolti

Sjáðu bakfallsspyrnu Zlatans sem tryggði Milan enn einn sigurinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Zlatan Ibrahimovic skorar með bakfallsspyrnu gegn Udinese.
Zlatan Ibrahimovic skorar með bakfallsspyrnu gegn Udinese. getty/Alessandro Sabattini

Zlatan Ibrahimovic sýnir engin merki þess inni á vellinum að hann verði fertugur á næsta ári og sé nýbúinn að jafna sig eftir að hafa fengið kórónuveiruna. Svíinn skoraði sigurmark AC Milan gegn Udinese í gær, 1-2, og er markahæstur í ítölsku úrvalsdeildinni.

Milan hefur farið liða best af stað í ítölsku úrvalsdeildinni og er með tveggja stiga forskot á toppi hennar.

Franck Kessie kom Milan yfir gegn Udinese í gær með skoti í slá og inn eftir sendingu Zlatans á 18. mínútu. Milan var 0-1 yfir í hálfleik en Rodrigo de Paul jafnaði fyrir Udinese úr vítaspyrnu á 48. mínútu.

Þegar sjö mínútur voru eftir skoraði Zlatan svo sigurmark Milan með skemmtilegri bakfallsspyrnu. Þetta var sjöunda mark hans í fjórum leikjum í ítölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Hann missti af tveimur fyrstu deildarleikjum Milan eftir að hann greindist með kórónuveiruna.

Mörkin úr leik Udinese og Milan má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Zlatan tryggði Milan sigur

Zlatan sneri aftur til Milan undir lok síðasta árs. Hann framlengdi svo samning sinn við liðið í sumar. Hann lék áður með Milan á árunum 2010-12 og varð Ítalíumeistari með liðinu 2011.

Frá því Zlatan kom aftur til Milan hefur hann skorað sautján mörk í 22 leikjum fyrir liðið. Milan hefur ekki tapað leik síðan keppni á Ítalíu hófst á ný eftir hléið vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×