Innlent

Krefjast afturköllunar leyfa: Segja velferð spila­fíkla „fórnað á altari hags­muna­gæslu“

Sylvía Hall skrifar
Spilasölum er gert að loka í nýrri reglugerð um samkomutakmarkanir. Þó var ekki kveðið sérstaklega á um spilakassa líkt og sóttvarnalæknir lagði til.
Spilasölum er gert að loka í nýrri reglugerð um samkomutakmarkanir. Þó var ekki kveðið sérstaklega á um spilakassa líkt og sóttvarnalæknir lagði til. Vísir/Vilhelm

Samtök áhugafólks um spilafíkn hafa óskað eftir útskýringum frá heilbrigðisráðherra varðandi hvers vegna lokun spilakassa var ekki tekin upp í reglugerð um hertar samkomutakmarkanir. Sóttvarnalæknir hafði lagt það til í minnisblaði sínu að þeim yrði lokað.

Í þeirri reglugerð sem tók gildi á miðnætti segir í 5. gr. að skemmtistöðum, krám og spilasölum skuli vera lokað frá gildistöku reglugerðarinnar. Það var einnig lagt til í minnisblaði sóttvarnalæknis, en spilakassar voru þó einnig með í upptalningu hans ólíkt því sem er í reglugerðinni.

Skemmtistöðum og krám, sbr. 18. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, og spilasölum skal lokað frá gildistöku reglugerðarinnar. Þá skulu aðrir veitinga­staðir þar sem heimilaðar eru áfengisveitingar ekki hafa opið lengur en til kl. 21.00 alla daga vik­unnar og fylgja ákvæðum 3. og 4. gr. Þó er heimilt að selja mat út úr húsi til kl. 23.00.„Afleiðingar þessa eru að Íslandsspil sf. hafa spilakassa sína opna. Þrátt fyrir að spilakassar þeirra eru staðsettir í spilasölum. Varla er það hlutverk heilbrigðisráðherra að gæta fjárhagslegra hagsmuna einstakra rekstraraðila umfram aðra, á kostnað lýðheilsu almennings í landinu,“ segir í bréfi samtakanna til heilbrigðisráðherra, en það var einnig sent til forsætis- og dómsmálaráðherra.

Samtökin gagnrýndu harðlega að spilakössum var ekki lokað í fyrri reglugerð.

Samtökin kalla eftir upplýsingum um „hver sé hin brýna þörf sem knýr heilbrigðisráðherra til að fara gegn tilmælum sóttvarnalæknis í þessum efnum“ og hafa einnig óskað eftir afriti af öllum erindum sem kunna að hafa borist ráðuneytum varðandi spilakassa í tengslum við sóttvarnir.

Alma Björk Hafsteinsdóttir er formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn.Vísir

Vilja að rekstrarleyfi verði afturkölluð 

„Samtök áhugafólks um spilafíkn fordæma að lýðheilsu og velferð svo viðkvæms hóps, sem spilafíklar eru, sem og lýðheilsu alls almennings, sé fórnað á altari hagsmunagæslu eigenda og rekstraraðila spilakassa Íslandsspila; Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ,“ segir í bréfinu.

Samtökin biðla jafnframt til heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir því að leyfi til reksturs spilakassa verði afturkölluð án tafar. „Á undanförnum mánuðum hefur berlega komið í ljós að umrædd "góðgerðasamtök" eru ekki verðug slíkra leyfa.“

Þau segja framkomu og starfshætti rekstraraðila benda til þess að þeim sé ekki treystandi til að halda úti svo viðkvæmri starfsemi.

„Ekkert í þeirra framkomu og starfsháttum gefur tilefni til að halda að þeim sé treystandi til að halda úti jafn umdeildri og viðkvæmri starfsemi, þar sem líf og velferð einstaklinga sem haldnir eru alvarlegum sjúkdómi er lagt að veði.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.