Íslenski boltinn

KR ætlar að áfrýja ákvörðun KSÍ

Ísak Hallmundarson skrifar
KR ætlar að áfrýja ákvörðun Knattspyrnusambands Íslands.
KR ætlar að áfrýja ákvörðun Knattspyrnusambands Íslands. vísir/skjáskot

Stjórn Knattspyrnudeildar KR hefur ákveðið að áfrýja ákvörðun KSÍ um að hætta keppni í Íslandsmótinu í knattspyrnu og láta núverandi stöðutöflu gilda. KR er það lið í Pepsi Max deildinni sem fer hvað verst út úr ákvörðuninni, enda þýðir hún að liðið muni ekki leika í Evrópukeppni næsta tímabil.

Páll tjáði sig í samtali við Vísi í gær þar sem hann taldi KSÍ ekki hafa heimild fyrir ákvörðun sinni.

„Ég skil ekki hvaða hagsmunir liggja þarna að leiðarljósi. Ég væri til í að sjá hvernig einstaka stjórnarmenn kusu í málinu. Það eru allir þreyttir á ástandinu í þjóðfélaginu en hér tel ég að það sé verið að fórna stærri hagsmunum fyrir minni. Hér er verið að fórna bæði félags- og fjárhagslegum hagsmunum fyrir minni hagsmuni sem eiga ekki að stjórna för,“ sagði Páll við Vísi síðla gærkvölds.

Yfirlýsing frá Knattspyrnudeild KR:

Stjórn knattspyrnudeildar KR ákvað á fundi sínum nú morgun að vísa ákvörðun stjórnar KSÍ, um að hætta keppni í Íslands- og bikarmóti, til árýjunardómstóls sambandsins. KR telur að ákvörðun stjórnarinnar, er byggir á reglugerð stjórnar, fari gegn ákvæðum laga sambandsins. Þannig hafi stjórn sambandsins ekki verið heimilt að ljúka keppni líkt og gert var. KR ætlar þannig að ákvörðun sambandsins sé ólögmæt og mun krefjast þess að ákvörðun stjórnar verði felld úr gildi. 

fh. knattspyrnudeildar KR,

Páll Kristjánsson, formaður




Fleiri fréttir

Sjá meira


×