Fótbolti

Mourin­ho hefði viljað gera 11 breytingar í hálf­leik | Mynd­band

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mourinho var ekki par sáttur á hliðarlínunni í gær.
Mourinho var ekki par sáttur á hliðarlínunni í gær. EPA-EFE/Stephanie Lecocq

Tottenham Hotspur tapaði óvænt 1-0 gegn belgíska liðinu Antwerpen á útivelli í Evrópudeildinni í gærkvöld.

José Mourinho, þjálfari liðsins, gerði fjölmargar breytingar á byrjunarliði sínu fyrir leikinn en stillti samt sem áður upp mjög sterku liði. Leikmenn á borð við Sergio Reguilon, Harry Winks, Giovani Lo Celso, Gareth Bale, Dele Winks, Steven Bergwijn og Vinicius fengu allir tækifæri í byrjunarliði Tottenham í gær.

Af þessum voru bara Reguilon og Winks sem spiluðu allar 90 mínúturnar. Mourinho gerði fjórfalda breytingu í hálfleik og sendi svo Harry Kane inn á þegar rúmur hálftími var eftir af leiknum.

Það breytti þó engu, sóknarleikur Tottenham var afleitur og Antwerpen vann óvæntan 1-0 sigur. Eftir leik sagði José að hann hefði viljað gera 11 breytingar í hálfleik. Þá sagði Portúgalinn að það ætti að kenna sér um tapið því hann væri stjóri liðsins.

„Við getum aðeins kennt okkur sjálfum um og hrósað mótherja kvöldsins. Ég myndi frekar vilja hrósa mótherja okkar fyrir frábæran leik í stað þess að kenna okkur um því við spiluðum skelfilega, en ég verð að gera bæði,“ sagði súr Mourinho í leikslok.

Tottenham hafði ekki tapað í tíu leikjum í röð og því má segja að frammistaðan í gær hafi komið verulega á óvart.

„Frammistaðan var léleg og úrslitin voru léleg í kjölfarið. Ef það á að kenna einhverjum um, kennið mér um því ég er stjórinn og það er á mína ábyrgð hverjir spila. Ég verð að viðurkenna að leikurinn staðfesti nokkra hluti sem ég var að velta fyrir mér og mun hjálpa mér með ákvarðanir mínar í framtíðinni,“ sagði hinn 57 ára gamli Mourinho að lokum.

Hér að neðan má sjá blaðamannafund José eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×