Erlent

Finnar í á­falli vegna net­glæps sem gæti haft á­hrif á þúsundir við­kvæmra sála

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Talið er að tölvuinnbrotið geti tengst tugum þúsunda viðskiptavina sálfræðiþjónustunnar.
Talið er að tölvuinnbrotið geti tengst tugum þúsunda viðskiptavina sálfræðiþjónustunnar. EPA-EFE/KIMMO BRANDT

Talið er að meðferðarskjölum allt að tvö þúsund skjólstæðinga finnsku sálfræðiþjónustunnar Vastaamo hafi verið lekið á netið. Tölvuþrjótar virðast hafa komist yfir gögn um tugi þúsunda skjólstæðinga fyrirtækisins.

Guardian greinir frá og segir að þúsundir viðskiptavina hafi hringt í öngum sínum í þjónustu sem sinnir fórnarlömbum glæpa til þess að ræða áhyggjur sínar af lekanum. Fyrirtækið rekur 25 meðferðarstöðvar út um allt Finnland og eru þúsundir viðskiptavina þess sagðir hafa kvartað til lögreglu vegna málsins.

Talið er að tölvuþrjótar hafi brotist inn í tölvuþjóna Vastaamo árið 2018 og komist þá yfir gögnin, en fyrirtækið segir að öll skjöl sem eru yngri en frá árinu 2018 séu í öruggum höndum hjá fyrirtækinu.

Tölvuöryggissérfræðingar telja að nótur og gögn sérfræðinga fyrirtækisins um allt að tvö þúsund skjólstæðinga þess hafi verið lekið á netið. Í frétt Guardian segir að finnska þjóðin sé í áfalli yfir fregnunum, meðal annars vegna þess að gögnum um viðkvæma hópa samfélagsins, þar á meðal barna, virðist vera á meðal þess sem stolið var af Vastaamo.

Ráðherrar í finnsku ríkisstjórninni komu saman í gær til þess að ræða hvernig hægt væri að bregðast við þjófnaðinum en Maria Ohisalo, innanríkisráðherra Finnlands, sagði í gær að tölvuinnbrotið væri áfall fyrir þjóðina.

Skjólstæðingar fyrirtækisins segjast margir hverjir hafa fengið orðsendingu um að þeir þyrftu að greiða þrjótunum 200 evrur, um 30 þúsund krónur, til þess að koma í veg fyrir að gögn um þá yrði lekið á netið. Lögregla rannsakar málið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×