Fótbolti

Elías Már skoraði tvö í öruggum bikar­sigri | Jafnt í Ís­lendinga­slagnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elías Már Ómarsson skoraði tvívegis í kvöld.
Elías Már Ómarsson skoraði tvívegis í kvöld. vísir/getty

Elías Már Ómarsson er áfram á skotskónum í Hollandi. Þá gerðu Ísak Bergmann Jóhannesson og Kolbeinn Sigþórsson 2-2 jafntefli er lið þeirra Norrköping og AIK mættust í sænsku úrvalsdeildinni.

Elías Már var á sínum stað í byrjunarliði Excelsior er liðið vann öruggan 4-0 sigur á Helmond Sport í hollensku bikarkeppninni í kvöld.

Elías Már skoraði annað mark Excelsior undir lok fyrri hálfleiks og heimamenn því 2-0 yfir í hálfleik. Elías gerði svo gott sem út um leikinn eftir rúman klukkutíma er hann skoraði annað mark sitt og þriðja mark Excelsior. Skömmu síðar bættu samherjar hans við fjórða markinu og lokatölur því 4-0. 

Excelsior þar með komið áfram í næstu umferð bikarsins.

Íslendingalið IFK Norrköping fékk AIK í heimsókn í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Ísak Bergmann Jóhannesson var í byrjunarliði Norrköping og lék allan leikinn að venju á miðju liðsins. Kolbeinn Sigþórsson kom inn af bekk AIK þegar hálftími var til leiksloka.

Sebastian Larsson bjargaði stigi fyrir gestina þegar þrjár mínútur voru til leiksloka en leiknum lauk með 2-2 jafntefli. 

Norrköping er nú í 2. sæti með 40 stig eftir 25 leiki, líkt og Häcken og Elfsborg. Fyrrnefnda liðið á þó leik til góða. AIK er hins vegar í 11. sæti með 31 stig eftir að hafa leikið 24 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×